Stjórn Arion banka og hluthafafundur hafa samþykkt að starfsfólk bankans fái hlutabréf í bankanum komi til þess að hann verði skráður á markað á árinu 2018, líkt og stendur til. Hver starfsmaður mun fá hlutabréf í bankanum sem samsvara útborgun einna mánaðarlauna, þó að hámarki einni milljón króna fyrir frádrátt tekjuskatts og annarra gjalda. Starfsfólki yrði ekki heimilt að selja hlutabréfin fyrr en tveimur árum eftir afhendingu og það starfsfólk sem ákveður að hætta hjá bankanum á því tímabili þyrfti að skila bréfunum án endurgjalds.
Heildarkostnaður bankans er áætlaður á bilinu sex til sjö hundruð milljónir króna, komi til skráningar, og þar af er um helmingur tekjuskattur sem rennur til ríkisins og launatengd gjöld.
Um svokallaða kaupaukagreiðslu er að ræða sem kemur ekki til greiðslu nema að undangengnu hlutafjárútboði og skráningu bankans á markað á árinu 2018. Mun greiðslan dragast frá öðrum mögulegum kaupaukagreiðslum til starfsfólks vegna ársins 2018, þar sem slíkt er fyrir hendi. Ítarlegar reglur Fjármálaeftirlitsins gilda um kaupauka starfsfólks fjármálafyrirtækja og er fyrirhugaður kaupauki í samræmi við þær og eftirlitið upplýst um hann.
Í fréttatilkynningu vegna þessa segir að markmiðið með aðgerðinni sé „ fyrst og fremst að færa hagsmuni starfsfólks nær hagsmunum bankans og auka tryggð.“ Þar segir einnig að um sé að ræða allt starfsfólk bankans, en það er um 850 talsins. Greiðslan næði ekki til starfsfólks dótturfélaga Arion banka. Þar segir enn fremur að ákvörðun um skráningu Arion banka á markað hafi enn ekki verið tekinn en að undirbúningur að breyttu eignarhaldi standi yfir. Almenn hlutafjárútboð og skráning á markað sé ein þeirra kosta sem verið sé að skoða.
Kjarninn hefur áður greint frá því að til hafi staðið að skrá Arion banka á markað, bæði á Íslandi og í Svíþjóð, apríl eða maí á þessu ári. Ljóst er að þau áform hafa ekki gengið eftir.