Laun stjórnarmanna Hörpu tónlistarhúss voru hækkuð um 8 prósent á aðalfundi Hörpu 26. apríl. Stjórnarmenn fá 100 þúsund á mánuði eftir hækkunina, sem var upp á 7.500 krónur á mánuði, en stjórnarformaðurinn, Þórður Sverrisson, fær tvöfalda þóknun.
Þetta kemur fram í fundargerð frá fundinum.
Þórður Sverrisson, stjórnarformaður Hörpu, segir í skilaboðum til Kjarnans að laun stjórnarinnar hafi ekki hækkað síðan árið 2013, eða í fimm ár.
Kaup og kjör í Hörpu hafa verið í brennidepli undanfarin misseri, og þá einkum kjör forstjórans, Svanhildar Konráðsdóttur.
Tuttugu þjónustufulltrúar í Hörpu ákváðu að segja upp störfum í mótmælaskyni, eftir að það fréttist að laun forstjórans hefðu verið hækkuð. Á þeim tíma þurfti mikið átak til að laga reksturinn og voru launakjör þjónustufulltrúana þá lækkuð.
Svanhildur Konráðsdóttir forstjóri Hörpu óskaði eftir því á dögunum við formann stjórnar Hörpu að laun hennar yrðu lækkuð afturvirkt frá 1. janúar 2018 og yrðu til samræmis við úrskurð kjararáðs frá því snemma árs 2017.
Þórður stjórnarformaður, og Vilhjálmur Egilsson, stjórnarmaður Hörpu, hafa sagt að umræðan um launakjör Svanhildar, og 20 prósent launahækkun hennar, séu hálfgerðar falsfréttir. Laun hennar upp á 1,5 milljónir hafi verið álitin sanngjörn, miðað við sambærileg störf.