Heildarkostnaður við ritun bókar um fyrstu 90 árin í sögu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) var um 22 milljónir króna. Frá þessu er greint í frétt sem birtist á vef fyrirtækisins í gær. Höfundar bókarinnar, sem kallast „Engin venjuleg verslun“, eru þrír; þau Hildigunnur Ólafsdóttir, Sumarliði R. Ísleifsson og Sverrir Jakobsson. ÁTVR er í eigu íslenska ríkisins.
Þrettán ár eru síðan að ritun bókarinnar hófst. Kjarninn óskaði eftir upplýsingum um hversu mikið verkefnið hefði kostað í lok apríl. Þá vildu stjórnendur ÁTVR ekki upplýsa um það og sögðust ætla að gera það með frétt á heimasíðu sinni í nánustu framtíð.
Í upphaflegri kostnaðaráætlun frá árinu 2006 var gert ráð fyrir að kostnaður við ritun og útgáfu sögunnar væri 14,4 milljónir. Nú hefur verið opinberað að endanlegur kostnaður sé 22 milljónir króna, sem er 53 prósent yfir upphaflegum kostnaði. Í svari ÁTVR við fyrirspurn Kjarnans kemur fram að greiðslur til höfunda voru 16 milljónir af kostnaði við útgáfu.
Í frétt á heimasíðu ÁTVR um útgáfu bókarinnar segir að tafir hafi orðið á útgáfunni vegna þess að ákveðið var að sagan spannaði lengra tímabil í sögu ÁTVR en upphaflega var lagt upp með og að tímafrekt hefði reynst að finna rétthafa mynda sem birtust í bókinni. Þar segir einnig að saga ÁTVR sé framlag til sögu lands og þjóðar.
Rafræn útgáfa af bókinni er komin í birtingu á vef ÁTVR, vinbudin.is. Bókin fer svo í almenna lausasölu hjá Pennanum á næstu vikum og verður aðgengileg á helstu bókasöfnum landsins.