Líf Magneudóttir oddviti Vinstri grænna segir eðlilegt að ríkisskattstjóra nenni ekki að eltast við þá sem sinna ekki skráningu á útleigu íbúða sinna til Airbnb, um smápeninga sé að ræða og líklega sé sýslumaður að eltast við stærri fiska.
Þetta kom fram á fundi Samtaka atvinnulífsins, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka iðnaðarins og Samtaka verslunar og þjónustu með oddvitum stærstu flokkanna í gær.
Bjarnheiður Hallsdóttir nýkjörin formaður SAF spurði oddvita út í skuggahagkerfið tengt íbúðagistingu sem hún sagði stórt í samanburði við aðrar þjóðir. „Áætlað að í Reykjavík sé framboð íbúðaherbergja svipað og framboð hótelherberja, hins vegar eru aðeins þúsund íbúðir með viðeigandi skráningu eða rekstrarleyfi eins og lög gera ráð fyrir,“ sagði Bjarnheiður og spurði oddvitana hvernig þeir ætluðu að sporna við þessu og hvort tilefni væri til að efna til stórátaks gegn þessari brotastarfsemi.
Svar Lífar virtist valda nokkrum kurr í salnum, en hún dró þá orð sín um að um smápeninga væri að ræða til baka. „En það sem ég hef sagt og við viljum gera er að sveitarfélögin hafi kannski sektarheimildir til þess að uppræta slíka starfsemi. Ólögleg starfsemi á slíkum markaði er vond,“ sagði Líf og velti því upp hvort breyta þyrfti núgildandi reglum og minnka þann fjölda gistinótta sem heimilt er að leigja íbúðir, en nú eru það 90 dagar. Líf nefndi þar töluna 70 eða 45 jafnvel.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði að meirihlutinn hefði strax gert athugasemdir við að eftirlitið með þessu væri á höndum sýslumanns og að þau hefðu haft áhyggjur af því að það væri of veikt og að Reykjavík væri til í að fá hlutverk í því að fylgja þessu fastar eftir. Búið sé að stofna hóp með sýslumanni til þess að allir séu að tala saman og fylgja þessu eftir. „Og það lofar bót og betrun og það eru einhver mál komin en okkur hefur ekki fundist þetta vera að virka nægilega vel,“ sagði Dagur.
Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokkinn sagði borgina hafa verið sofandi með framboð á íbúðarhúsnæði sem valdi þrýsingi á heimilin. Framboðið þurfi að vera meira til að ná jafnvægi á markaðinn, annars væri hér alltaf svartur markaður.
Eyþór nefndi í þessu samhengi einnig bílaleigubíla. „Við sjáum það að þeir leggja mjög mikið í grónum hverfum þar sem ekki eru bílastæðagjöld og við sjáum að þeir eru svolítið að ryðja út bílstæðum fyrir íbúa. Ég myndi vilja sjá einhvers konar bílastæðakort fyrir íbúa þannig að íbúar gengju fyrir í þessum málum. Það er ótrúlegur fjöldi sem er að taka bílaleigubíla.“
Airbnb með þriðjung af gistinóttamarkaðnum
Í skýrslu Íslandsbanka frá því í apríl kemur fram að Airbnb er orðið næstumfangsmesta gistiþjónusta landsins og þrisvar sinnum stærri en sú þriðja umfangsmesta sem eru gistiheimili. Flestar gistinætur voru þó seldar á hótelum, alls 4,3 milljónir á árinu 2017. Í gegnum Airbnb voru 3,2 milljónir gistinótta seldar í fyrra.
Tekjur leigusala í gegnum Airbnb á Íslandi námu 19,4 milljörðum á árinu 2017 og jukust um 109% frá fyrra ári. Meðalverð fyrir sólarhringsdvöl á Airbnb er misjafnt eftir því hvers eðlis gistirýmið er. Þegar um er að ræða leigu á öllu heimilinu er meðalverðið um 21,6 þúsund krónur. Til samanburðar er meðalverð á hótelherbergi í Reykjavík um 19,7 þúsund. Heilt heimili getur hýst fleiri gesti en hótelherbergi alla jafna og er því meðalverð á hvern einstakling lægra á Airbnb en á hótelum.
Tekjuhæsti leigusali síðasta árs velti 230 millónum og var með 46 útleigurými í gegnum Airbnb. Rýmin geta verið allt heimilið, sameiginlegt herbergi eða sérherbergi. Þá eru eiginleikar á borð við gæði og fjölda gesta sem rýmið hýsir einnig ólíkir á milli rýma. Sá leigusali sem var á meðal þeirra tekjuhæstu og var með mestar tekjur á hvert útleigurými velti rúmum 12 milljónum á hvert rými yfir 12 mánaða tímabil eða rúmlega milljón í hverjum mánuði á hvert rými. Á sama tíma er mánaðarlegt leiguverð á hvern fermetra á hefðbundnum leigumarkaði í kringum þrjú þúsund krónur fyrir tveggja herbergja íbúðir. Það gerir um 210 þúsund sé íbúðin 70 fermetrar. Meðalfermetraverð lækkar svo eftir því sem herbergjum fjölgar og íbúðin stækkar. Það er því ljóst að leigusalar geta aflað umtalsvert meiri tekna með því að leigja erlendum ferðamönnum í gegnum Airbnb en með því að leigja á hefðbundnum leigumarkaði. Hefur þessi hvati leitt til þess að íbúðir á hefðbundnum leigumarkaði eru færri en ella sem veldur að öðru óbreyttu hækkunarþrýstingi á leiguverð.