Egill Sigurðsson, stjórnarformaður Mjólkursamsölunnar, segir í samtali við Kjarnann að líklegast hafi verið um misskilning eða mistök að ræða þegar Mjólkursamsalan lagði fram fjármuni í framboð Eyþórs Arnalds í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Styrkveitingin hafi ekki verið samþykkt í stjórn MS og að þau hafi ekki verið með bein fjárframlög til stjórnmálaflokka í langan tíma.
Athygli hefur vakið að Mjólkursamsalan ehf. lagði fram 200 þúsund krónur í framboð Eyþórs en það kemur fram í útdrætti úr uppgjöri framboðsins sem hann skilaði til Ríkisendurskoðunar.
„Ég átta mig ekki á hvað hefur farið úrskeiðis,“ segir Egill varðandi styrkveitingar til Eyþórs en hann bætir því að verið sé að fara yfir málið og að það verði sérstaklega tekið fyrir á næsta stjórnarfundi þann 24. maí næstkomandi.
Athugasemd gerð kl. 14:20: Samkvæmt heimildum Kjarnans hefur Eyþór endurgreitt styrkinn. Egill segir í samtali við Kjarnann að hann hafi fyrir hádegi haft frumkvæði að því að greiða styrkinn til baka. Aldrei hafi verið heimild fyrir þessum styrk og teljist málinu því lokið.
Framboð Eyþórs kostaði samtals rúmar 4,9 milljónir króna en framlög til þess voru rúmar 3,3 milljónir króna, þar af ein milljón sem Eyþór lagði sjálfur til.