Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri, segir RÚV hafa staðið frammi fyrir erfiðum valkostum þegar ákveðið var að ráðum lögfræðinga félagsins að greiða Guðmundi Spartakusi Ómarssyni 2,5 milljónir í málskostnað og bætur út af fréttaflutningi RÚV vegna tiltekinna ummæla í fréttum af málum hans í upphafi árs 2016.´
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag, en í Fréttablaðið greinir einnig frá málinu og segir að mikil óánægja sé innan RÚV vegna samkomulagsins.
Fram hefur komið að samkvæmt samkomulaginu viðurkennir RÚV ekki sekt í málinu. Fréttirnar vörðuðu meinta aðild Guðmundar að fíkniefnamáli.„Á sínum tíma höfðu verið fluttar nokkrar fréttir á árinu 2016 af þessu máli í RÚV og reyndar öðrum miðlum. Þær byggðust að miklu leyti á umfjöllun erlendra fjölmiðla en einnig erlendum heimildarmanni. Síðar stefnir Guðmundur RÚV og fleirum vegna þessa. Megnið af því sem fram kom í fréttum um málið byggðist á heimildum sem höfðu birst opinberlega en þegar til átti að taka kemur í ljós að heimildarmaður RÚV er ekki tilbúinn til að staðfesta ummæli sín með formlegum hætti, sem sneru að nokkrum tilteknum atriðum í þessum fréttum,“ segir Magnús Geir í viðtali við Morgunblaðið í dag.