Breski auðjöfurinn Jim Ratcliffe er ríkasti maður Bretlands samkvæmt nýrri úttekt The Sunday Times. Alls eru eignir hans metnar á 21,1 milljarð punda, um 2.933 milljarða króna. Ratcliffe var í 18 sæti lista blaðsins í fyrra en ástæða þess að hann tekur svona stórt stökk milli ára er fyrst og fremst sú að eignir hans voru endurmetnar á síðasta ári. Ratcliffe er forfallinn áhugamaður um villta laxastofna, heldur með Manchester United og hleypur helst tíu kílómetra á hverjum morgni. Hann er 65 ára gamall.
Eignir hans eru að miklu leyti bundnar í meirihlutaeign í efnaframleiðslustórveldinu Ineos Group.
Ratcliffe er umsvifamikill á Íslandi. Hann keypti til að mynda stóran eignarhlut í Grímsstöðum á fjöllum í lok árs 2016 auk þess sem hann hefur keypt upp jarðir í Vopnafirði í grennd við gjöfular laxár, meðal annars Selá og Hofsá.
Þegar Ratcliffe keypti Grímsstaði á sínum tíma sendi hann frá sér yfirlýsingu sem í stóð að á Grímsstöðum væri vatnasvið mikilvægra laxveiðiáa á Norðausturlandi og að kaupin á landinu væru þáttur í því að venda villta laxastofna við Atlantshaf. Íslenska ríkið á enn hluti í jörðinni og einnig nokkrir aðrir landeigendur.