Bílgreinasambandið hefur þrýst á íslensk stjórnvöld frá því í vetur að gera ráðstafanir til þess að draga úr fyrirsjáanlegri hækkun á verði bifreiða vegna nýs mengunarmælikvarða Evrópusambandsins.
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag, en talið er að hækkunin geti orðið á bilinu 20 til 30 prósent, en í fyrstu verður hún á bilinu 10 til 15 prósent, og er miðað vði 1. september, næstkomandi.
Þetta segir Jón Trausti Ólafsson, formaður sambandsins. Hann fagnar nýjum og réttlátari mengunarmælikvarða en gagnrýnir stjórnvöld fyrir seinagang í aðgerðum til þess að mæta hækkunum sem nýjum mælikvarða fylgir.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag telur Jón Trausti að of seint sé að bregðast við væntanlegri 10 til 15% hækkun á innfluttum bílum 1. september en stjórnvöld geti gripið til aðgerða til þess að koma í veg fyrir aðra slíka hækkun í byrjun janúar og jafnvel gert ráðstafanir til þess að leiðrétta væntanlega hækkun í september. Evrópusambandið hefur hvatt aðildarríkin til þess að gera ráðstafanir til að sporna við hækkunum. Danir munu lækka tolla og Svíar fresta gildistöku til 2020.