Staðgreiðsluskyldar greiðslur í ríkissjóð, sá grunnur sem staðgreiðsla er reiknuð af, hafa aldrei verið jafn háar og þær voru árið 2017. Þær jukust um 125 milljarða króna á milli ára. Alls voru staðgreiðsluskyldar greiðslur 1.525 milljörðum króna á árinu 2017. Þetta kemur fram í grein eftir Pál Kolbeins rekstrarhagfræðing í nýjasta tölublaði Tíundar, fréttablaði ríkisskattstjóra.
Þar segir einnig að tekjuaukningin sé að miklu leyti tilkomin vegna fólks sem greiddi staðgreiðslur í fyrsta skipti árið 2017 „og því bendir ýmislegt til þess að stór hluti tekjuaukningarinnar hafi verið vegna aðstreymis verkafólks til landsins.“
Í greininni segir að um 77,4 prósent aukningarinnar hafi orðið á höfuðborgarsvæðinu, mest í Reykjavík, eða á Reykjanesi, en þar hefur erlendum ríkisborgurum fjölgað mun hraðar en annars staðar á landinu.
25 prósent aukning á fjölda erlendra íbúa
Á árinu 2017 voru aðfluttir erlendir ríkisborgarar sem fluttu til Íslands 7.910 fleiri en brottfluttir. Alls fjölgaði erlendum ríkisborgurum á Íslandi um 25 prósent á síðasta ári. Þeim hefur fjölgað um 81 prósent frá byrjun árs 2011 og eru nú 37.950 talsins. Þá eru ekki taldir með þeir sem koma hingað á vegum t.d. starfsmannaleiga.
Öll íbúafjölgun í Reykjavík í fyrra vegna erlendra ríkisborgara sem fluttu til borgarinnar. Borgarbúum fjölgaði um 2.800 á árinu 2017 og voru 126.100 um nýliðin áramót. Erlendum ríkisborgurum sem búa í höfuðborginni fjölgaði á saman tíma um 3.140 og erum nú 15.640 talsins. Erlendum íbúum höfuðborgarinnar hefur fjölgað um 70 prósent frá byrjun árs 2012.
Um 36 prósent allra launa voru greidd í Reykjavík í fyrra og 39,6 prósent aukningarinnar sem átti sér stað í launum, alls um 50 milljarðar króna, átti sér stað innan marka hennar.
Á höfuðborgarsvæðinu búa 23.200 erlendir ríkisborgara og þeim fjölgaði um 4.280 á árinu 2017. Það þýðir að erlendum ríkisborgurum sem búa í Kópavogi, á Seltjarnarnesi, í Garðabæ, Hafnarfirði, Mosfellsbæ og í Kjósahreppi fjölgaði samtals um 1.140 á síðasta ári. Launahækkanir í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur voru heldur minni en í höfuðborginni í fyrra, en þar jukust laun um 36 milljarða króna í fyrra. Það samsvarar um 28,5 prósent heildarhækkunar launa.
Reykjanes í sérflokki
Mestur uppgangur í landinu á árinu 2017 var á Reykjanesi. Í sveitarfélögunum Reykjanesbæ, Grindavík, Sandgerði, Garði og Vatnsleysihreppi jukust staðgreiðsluskyldar greiðslur um 12,8 prósent milli ára. Alls hækkuðu launagreiðslur um 12 milljarða króna í fyrra, mest í Reykjanesbæ þar sem þær jukust um 15,2 prósent.
Um síðustu áramót bjuggu 3.650 erlendir ríkisborgarar í Reykjanesbæ. Þeim fjölgaði um 1.070 á síðasta ári, eða um 41 prósent. Alls búa 16.350 í Reykjanesbæ, sem þýðir að 22,3 prósent íbúa sveitarfélagsins eru erlendir ríkisborgarar. Íbúum þess fjölgaði samtals um 1.117 á árinu 2017. 96 prósent þeirrar fjölgunar er vegna erlendra ríkisborgara sem fluttu í sveitarfélagið.
Ástæðan er fyrst og síðast sú mikla aukning í umsvifum sem orðið hefur á Keflavíkurflugvelli sem staðsettur er á Reykjanesi. Ferðamönnum sem heimsækja Íslands hefur enda fjölgað úr um 500 þúsund árið 2010 og í um 2,3 milljónir í fyrra, samkvæmt spám.