Ríkisstjórnin samþykkti á fundi í morgun að veita Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra umboð til að veita skriflegt samþykki við fyrirhugaðri sölu á öllum eignarhlutum í Rio Tinto á Íslandi hf. frá Alcan Holding Switzerland AG til Hydro Aluminium AS, vegna álversins í Straumsvík, og að félagið taki þar með yfir aðalsamninginn frá 1966.
Þórdís er stödd erlendis og mun hún skrifa undir bréfið þegar hún kemur heim á morgun, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Í framhaldi af því hefst vinna um gerð lagafrumvarps sem miðar að því að fella úr gildi og rifta aðalsamningnum frá 1966, í samræmi við vilja nýs eigenda og stjórnvalda. Stefnt er að því að leggja slíkt frumvarp fram á Alþingi á komandi haustþingi.
Eins og Kjarninn greindi frá í febrúar síðastliðnum þá gerði norska fyrirtækið Norsk Hydro ASA skuldbindandi tilboð um að kaupa álverið í Straumsvík af núverandi eiganda þess, Rio Tinto. Í tilboðinu felst að kaupa allt hlutafé í íslenska álverinu, 53 prósent hlut í hollenskri verksmiðju Rio Tinto og helmings hlut í sænskri verksmiðju fyrirtækisins. Tilboðið í allan pakkann hljóðar upp á 345 milljónir dali, eða 34,7 milljarða króna.
Norsk Hydro er eitt stærsta álfyrirtæki í heimi. Norska ríkið á 43,8 prósent hlut í því og norski olíusjóðurinn á auk þess 6,5 prósent hlut. Hjá fyrirtækinu starfa um 13 þúsund manns. Hlutabréf Norsk Hydro eru skráð í kauphöllinni í Osló.
52 ára samningur
Aðalsamningur milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Limited, sem nú er Rio Tinto á Íslandi hf., um álver í Straumsvík er upphaflega frá 28. mars 1966. Hefur samningnum verið breytt níu sinnum og hefur samþykki Alþingis fyrir viðkomandi viðaukasamningum verið aflað í hvert sinn. Þetta kemur fram í upplýsingum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.
Samkvæmt aðalsamningnum er sala á eignarhlutum í félaginu, og yfirtaka á samningnum, háð samþykki íslenskra stjórnvalda. Óskaði Hydro Aluminium AS eftir slíku samþykki.
Afstaða Hydro er sú að aðalsamningurinn frá 1966 sé úreltur og óskaði félagið eftir því að í framhaldi af því að íslensk stjórnvöld samþykki kaup félagsins á álverinu þá verði sett af stað vinna sem hafi það að markmiði að rifta aðalsamningnum. Slík ákvörðun um riftun er háð samþykki Alþingis og verði það niðurstaðan að fella aðalsamninginn úr gildi er það ósk Hydro að það verði gert með lagafrumvarpi í haust, segir í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans.