Arnþrúði Karlsdóttur útvarpsstjóra Útvarps sögu hefur verið gert að greiða hlustanda stöðvarinnar 3,3 milljónir króna auk dráttarvaxta sem og 620 þúsund krónur í málskostnað. Dómur þessa efnis var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Forsaga málsins er sú að kona lagði alls 3,6 milljónir króna inn á persónulegan bankareikning Arnþrúðar á árunum 2016 til 2017. Konan sagði að um lán hefði verið að ræða en Arnþrúður vildi hins vegar meina að um styrk til Útvarps sögu hafi verið að ræða.
Pétur Gunnlaugsson lögmaður og útvarpsmaður á Útvarpi sögu flutti málið fyrir hönd Arnþrúðar. Í málflutningi þeirra kom fram að konan hafi tekið þá ákvörðun á eigin spýtur að gerast styrktaraðili Útvarps Sögu. Hún hafi komið í húsakynni útvarpsstöðvarinnar og sagst vilja styrkja stöðina. Hún hafi ekki viljað fara hefðbundna leið sem styrktaraðili og lagt á það ríka áherslu að nafn hennar kæmi hvergi fram opinberlega og því lagt fjármunina inn á einkareikning Arnþrúðar.
Hérðasdómur segir í niðurstöðu sinni að Arnþrúður og rekstrarfélag útvarpsstöðvarinnar hefðu að minnsta kosti átt að tryggja sönnun fyrir því ef um var að ræða styrk en ekki peningalán í ljósi þess hversu háar fjárhæðirnar voru og að umræddar greiðslur voru lagðar inn á persónulegan bankareikning Arnþrúðar en ekki almennan styrktarreikning rekstarfélagsins.
Þannig hafi ekki veirð sýnt fram á eða gert líklegt að konan hafi verið að færa Útvarpi sögu féð að gjöf til styrktar útvarpsrekstrinum og Arnþrúði því gert að endurgreiða peningana.