Stjórnvöld í Norður Kóreu hóta því að aflýsa fyrirhuguðum leiðtogafundi þeirra Kim Jong-Un og Donalds Trump í júní næstkomandi, en hann á að fara fram í Singapúr.
Grundvallarkrafa Bandaríkjanna er sögð vera sú að Norður-Kórea eyði sínum kjarnorkuvopnum, en nú þegar hefur tilraunasvæði landsins, þar sem eldflaugum hefur verið skotið á loftið, verið jafnað við jörðum.
Í umfjöllun Washington Post segir að stjórnvöld í Norður-Kóreu hafi frestað fundi með yfirvöldum í Suður-Kóreu þar sem heræfingar Bandaríkjanna og Suður-Kóreu, á Kóreuskaga, feli í sér ögrun við Norður-Kóreu.
Aðstoðarutanríkisráðherra Norður Kóreu, Kim Kye Gvan, sendi frá sér yfirlýsingu í gær, sem flutt var samviskusamlega í ríkisfjölmiðlum landsins, meðal annars í sjónvarpi. Þar varaði hann við því, að Norður-Kórea yrði ekki kúguð til að afvopnast að fullu, og að heræfingar Bandaríkjanna og Suður-Kóreu væru ekki til þess fallnar að skapa ráðrúm til góðra samskipta.
North Korea has announced that they will dismantle Nuclear Test Site this month, ahead of the big Summit Meeting on June 12th. Thank you, a very smart and gracious gesture!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) May 12, 2018
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sagst vera vongóður um að viðræður við Kim Jong Un muni leiða til þess, að meiri friðsemd skapist á Kóreuskaga, og að ógnin af Norður-Kóreu yrði ekki lengur fyrir hendi. Hefur það verið afdráttarlaus krafa Bandaríkjanna að Norður-Kórea afvopnist alveg af kjarnorkuvopnum.