Leiðrétt fyrir áhrifum skuldalækkunaraðgerða stjórnvalda stækkaði stofn útlána lánakerfis til heimila um 5,7 prósent á fyrsta fjórðungi ársins, að því er fram kemur í Peningamálum Seðlabanka Íslands.
Er það lítillega meiri aukning en var á fjórðungunum tveimur þar á undan.
Útlán lífeyrissjóða vega enn þyngst í aukningunni og hlutdeild þeirra á lánamarkaði vex því áfram. Nema útlán þeirra nú um 17,5% af heildarútlánastofni lánakerfisins til heimila samanborið við 9,5% í ársbyrjun 2016. ´
Lífeyrissjóðir bjóða nú betri kjör en bankar á húsnæðislánum til heimila, og má gera ráð fyrir að það sé grundvallarástæða þess að fólk leitar frekar til þeirra en banka þegar kemur að húsnæðislánum.
Hlutfall sjóðfélagalána af hreinni eign lífeyrissjóða hefur því hækkað nokkuð frá því að það var í sögulegri lægð undir lok árs 2015 og er nú nálægt meðaltali undanfarinna tuttugu ára.
Á móti auknum útlánum lífeyrissjóða og innlánsstofnana hafa útlán Íbúðalánasjóðs áfram dregist saman og er hlutdeild hans á lánamarkaði nú svipuð og hlutdeild lífeyrissjóða í heild sinni.