Af þeim 1.692 sem brautskráðust úr grunnnámi í Háskóla Íslands í fyrra voru 1.108 konur og 584 karlar. Tveir þriðju konur og einn þriðji karlar.
Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði og nefndarmaður í peninganefnd Seðlabanka Íslands, gerir þessa stöðu að umtalsefni í grein í Vísbendingu, sem kom til áskrifenda í dag, sem ber heitið; Hvar eru drengirnir?
Í greininni fjallar hann meðal annars um brottfall drengja úr skólakerfinu, og segir að þetta mál sé engan vegin einskorðað við Ísland. Hins vegar komi frá bæði félagsleg og efnahagsleg vandamál sem þurfi að taka alvarlega. „Brottfall og slakari námsárangur drengja einskorðast engan veginn við Ísland. Hins vegar felst í því félagslegt og efnahagslegt vandamál fyrir Ísland. Það hlýtur að teljast óréttlæti að velgengni nýfædds Íslendings í námi ráðist að verulegu leyti af því hvort hann sé klæddur bláum eða bleikum fötum á fæðingardeildinni. Það er því mikilvægt að greina ástæður þeirrar þróunar sem hér hefur verið lýst og gera kerfisbreytingar þannig að bæði karlar og konur fái þrifist í samfélagi okkar.
Við getum velt fyrir okkur nokkrum hugsanlegum skýringum á brottfalli drengja en þær eru einungis vangaveltur þangað til að orsakir hafa verið kannaðar og rannsakaðar. Mögulegt er að sú staðreynd að kennarastéttin er kvennastétt (fimmfallt fleiri konur brautskráðust með kennaramenntun árið 2013!) verði til þess að drengjum skorti fyrirmyndir í skólanum. Drengir á táningsaldri þurfa á jákvæðum fyrirmyndum að halda og ekki ljóst hvert þeir eigi að sækja þær. Kannski eru það frægir knattspyrnumenn eða svokallaðir „jútúbarar“ sem halda einræður á „youtube“. Einnig er mögulegt er að drengir þurfi meiri aga en stúlkur í námi og hann skorti í núverandi kerfi,“ segir Gylfi meðal annars í grein sinni.
Hann fjallar einnig um málin frá öðrum hliðum, dregur fram hagtölur máli sínu til stuðnings, og spyr hvað sé til ráða, til að hægt sé að virkja drengi og karla betur í samfélaginu.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.