Nýjum vef hefur verið hleypt af stokkunum hjá Ríkisútvarpinu. Hann ber nafnið RÚV núll og á að höfða til ungs fólks á aldrinum 15 til 29 ára. Samkvæmt því sem segir á vefsíðu RÚV er markmiðið að ungt fólk geti alltaf stólað á að RÚV bjóði upp á fyrsta flokks efni sem vekur áhuga, skemmtir og fræðir ásamt því að vekja upp spurningar og umræðu.
Síðan var opnuð á fimmtudaginn í síðastliðinni viku og eru fjórir starfsmenn í fullu starfi á RÚV núll. Atli Már Steinarsson leysir Snærósu Sindradóttur af sem verkefnastjóri UngRÚV en hún er nú í fæðingarorlofi. Auk Atla Más eru tveir þáttastjórnendur sem sjá um að gera tveggja tíma þátt sem streymt er daglega fyrir og eftir hádegi á vefnum, þau Ísak Hinriksson og Helga Margrét Höskuldsdóttir. Fjórði starfsmaðurinn er framleiðandinn og sér hann meðal annars um að framleiða efni fyrir sjónvarpið.
Atli Már segir í samtali við Kjarnann að vefurinn eigi að vera einskonar heimili fyrir ungt fólk hjá RÚV. Hann segir að þau hafi horft til Norðurlandanna þegar þau voru að þróa vefinn; bæði hvað varðar hugmyndafræði og tónlistarval.
Nauðsynlegt að rödd ungs fólks fái að heyrast
Á RÚV núll er efni safnað saman sem framleitt er í húsinu og höfðar sérstaklega til þessa aldurshóps. „Efninu verður miðlað eftir þeim leiðum sem ungt fólk vill nota, þegar það vill njóta þess. Þar að auki hefur öflugt ungt dagskrárgerðarfólk verið fengið til að búa til fjölbreytt efni sem endurspeglar daglegt líf og áhugasvið fólks á þessum aldri,“ segir í lýsingu á vefnum á RÚV.
Vegna þess að síðan er svo nýfarin í loftið þá hefur Atli Már ekki fengið mikil viðbrögð við síðunni nema innanhúss og frá fólki í kringum þau. Viðbrögðin hafa verið góð, að hans sögn.
Hann segir nauðsynlegt að þjónusta þennan hóp og telur hann að ungt fólk verði að fá að láta rödd sína heyrast. Þess vegna sé mikil þörf fyrir stöð eða vef sem þennan hjá Ríkisútvarpinu. Hann segir enn fremur mikilvægt að tala ekki niður til fólks á þessum aldri, það sé klárt og skemmtileg og hafi margt fram að bjóða.
„KrakkaRÚV er búið að slá í gegn og vonandi getum við leikið það eftir,“ segir hann að lokum.