Hlutafé Torg ehf., útgefanda Fréttablaðsins, var aukið af 365 miðlum um 149,5 milljónir króna í lok síðasta árs. Viðskiptablaðið greinir frá.
365 miðlar færðu rekstur Fréttablaðsins yfir í Torg, eftir kaup Vodafone, nú Sýnar, á öðrum fjölmiðlum 365 miðla í desember. Greitt var fyrir aukið hlutaféð með þeim eignum sem 365 miðlar lögðu í Torg samkvæmt gögnum sem fyrirtækið sendi inn til fyrirtækjaskrár.
Þar kemur fram að yfirfærsla verðmæta 365 miðla til Torgs byggist á bókfærðu verði í reikningsskilum 365 miðla en framkvæmd hafi verið sérstök yfirferð á eignunum með tilliti til virðisrýrnunar. Þá staðfestu stjórnarmenn og löggiltur endurskoðandi að þær eignir sem færðar hafi verið yfir í Torg væru að minnsta kosti 149,5 milljóna króna virði.
Ekki liggur fyrir hvert bókfært virði eignanna er en 365 miðlar hafa ekki skilað ársreikningum fyrir árin 2016 og 2017.
Tilkynnt var um það í mars 2017 að Fjarskipti, móðurfélag Vodafone á Íslandi, hefði undirritað samning um kaup á öllum eignum og rekstri 365 miðla, að undanskildum eignum er varða útgáfu Fréttablaðsins. Þeir miðlar sem seldir voru yfir frá 365 miðlum voru Stöð 2 og tengdar sjónvarpsstöðvar, útvarpsrekstur fyrirtækisins (t.d. Bylgjan, X-ið og FM957) og fréttavefurinn Vísir.is. Fréttastofa 365 fylgdi með í kaupunum, en hún er ein stærsta fréttastofa landsins og sú eina sem heldur úti daglegum sjónvarpsfréttatíma utan fréttastofu RÚV.
Samkeppniseftirlitið samþykkti samruna Fjarskipta og flestra miðla 365 með skilyrðum í byrjun október síðastliðins. Keyptu eignirnar færðust yfir til Fjarskipta 1. desember 2017.