Íslenska ríkið greiðir um 500 milljónir króna á ári í póstburðargjöld vegna bréfasendinga til einstaklinga og fyrirtækja. Þar af nemur árlegur kostnaður ríkisins við að senda út tilkynningar opinberra gjalda um 120 milljónum króna. Tekjur Íslandspósts af póstþjónustu voru 7,5 milljarðar króna á árinu 2017. Það þýðir að tæplega sjö prósent af öllum póstþjónustutekjum Íslandspósts eru vegna póstburðargjalda sem ríkið greiðir vegna bréfasendinga. Íslandspóstur er að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins. Ef það hefði ekki greitt hálfan milljarð króna í póstburðargjöld á síðasta ári hefði Íslandspóstur verið rekinn með tæplega þrjú hundruð milljóna króna tapi á því rekstrarári. Póstburðargjöld Íslandspósts hafa þrefaldast á tíu árum.
Þann 4. maí síðastliðinn sendi Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, frá sér breytingartillögu vegna fyrirhugaðra lagabreytinga á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld. Í tillögunni felst breytingartillaga vegna rafrænna birtingar álagningarseðla. Þar koma ofangreindar upplýsingar um kostnað ríkisins af póstburðargjöldum fram.
Vill stafræna þjónustugátt
Í tillögu Bjarna segir að unnið sé að því á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins að koma upp stafrænni þjónustugátt fyrir hið opinbera og að auka aðganga almennings að stafrænni þjónustu. Hluti af þeirri þjónustugátt er pósthólf þar sem borgurum landsins verður gert fært að nálgast öll gögn og erindi frá opinberum aðilum. Stefnt er að því að síðar verði mögulegt að senda erindi á allar stofnanir ríkisins í gegnum pósthólfið og fá tilkynningar þegar ný erindi berast. Þetta kemur fram í breytingartillögu vegna rafrænnar birtingar álagningarseðla sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lagði fram 4. maí síðastliðinn.
Í henni segir að pósthólfið sé nú þegar uppsett og aðgengilegt undir mínum síðum á vefsvæðinu Island.is. „Þrátt fyrir að hafa verið aðgengilegt í nokkur ár hafa fáar stofnanir og sveitarfélög valið að nýta sér pósthólfið til að senda bréf og skilaboð til fyrirtækja og almennings. Unnið er að bættri framsetningu pósthólfsins og einföldun á tæknilegu aðgengi til að laða fleiri stofnanir og sveitarfélög til að nýta sér pósthólfið. Notagildi pósthólfsins er háð því hversu margir opinberir aðilar miðla bréfum og öðrum samskiptum í gegnum pósthólfið. I nýlegu samkomulagi ríkis og sveitarfélaga er pósthólfið tilgreint sem eitt af sameiginlegum verkefnum sem unnið verður að á gildistíma fjármálaáætlunar.“
Meginreglan að allt verði birt rafrænt
Bjarni segir í skjalinu að með því að birta skjöl í sameiginlegu stafrænu pósthólfi megi spara fjármuni, draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og bæta þjónustu.
Öll erindi frá hinu opinbera verða á einum stað og hægt verður að nálgast þau hvar og hvenær sem er. Þó er æskilegt að þeir sem óska þess sérstaklega að fá tilkynningar sendar bréflega geti fengið þá þjónustu. Til þess að hagræðið náist ætti meginreglan að verða sú að allar tilkynningar um álagningu skatta og gjalda verði birtar með rafrænum hætti.“
Fjármála- og efnahagsráðherra óskar eftir því við efnahags- og viðskiptanefnd að hún taki til skoðunar hvort ekki sé unnt að bæta ákvæði við áðurnefnt lagafrumvarp, sem nefndin hefur til meðferðar, er heimili að tilkynningar um álagningu skatta og gjalda verði birtar með rafrænum hætti. „Taki nefndin jákvætt í beiðni mína er rétt að árétta að það er mikilvægt að heimildin verði að lögum áður en Alþingi verður frestað í júní næstkomandi svo rafrænar birtingar í stað bréfasendinga geti hafist sem fyrst á þessu ári,“ segir Bjarni að lokum.