Forseti Venesúela, Nicolás Maduro, vann var sigurvegarinn í forsetakosningunum í landinu, samkvæmt útgönguspám. Kosið var í gær, en kosningaþátttaka var slök, um 46 prósent.
Samkvæmt fréttum breska ríkisútvarpsins BBC var Maduro með 67,7 prósent fylgi þegar búið var að telja 90 prósent atkvæða, en helsti keppinautur hans, Henri Falcón, var með rúmlega 21 prósent.
Óhætt er að segja að Maduro, sem er 55 ára gamall, hafi verið mikið í sviðsljósinu undanfarin ár, enda hefur efnahagur Venesúela hrunið og hagstjórn stjórnvalda verið í molum.
Samkvæmt umfjöllun Reuters hafa stjórnvöld í Venesúela ekki birt opinberar hagtölur í langan tíma, en síðustu opinberu tölur um atvinnuleysi birtust fyrir tveimur árum. Þá mældist það 7,3 prósent, en talið er að atvinnuleysi sé nú mælt í tugum prósenta.
Þá hrundi hagkerfi landsins niður um 14 prósent í landsframleiðslu í fyrra, samkvæmt tölum Alþjóðabankans, sem hefur lýst efnahagshruni Venesúela sem sjaldgæfum atburði, vegna þess hve hratt hefur fjarað undan viðkvæmu hagkerfi landsins.
Í Venesúela búa tæplega 32 milljónir manna, eða sem nemur vel rúmlega íbúafjölda allra Norðurlandanna, samanlagt, en þar búa um 27 milljónir manna.