Þann 1. janúar 1998 bjuggu 820 einstaklingar sem fæddir voru í Póllandi á Íslandi. Í byrjun árs 2017 voru þeir 13.811 og þegar það ár var liðið höfðu 3.191 erlendir ríkisborgarar frá Póllandi bæst við hérlendis og heildarfjöldi þeirra þar með orðinn rúmlega 17 þúsund. Fjöldi þeirra sem annað hvort eru fæddir í Póllandi eða eru pólskir ríkisborgarar en búa á Íslandi hefur því 21faldast á 20 árum. Þetta má lesa út úr nýjum tölum Hagstofu Íslands um flutninga til landsins.
Á árinu 2017 fluttu alls 4.549 einstaklingar með pólskt ríkisfang en 1.315 slíkir fluttu frá því. Þeim fjölgaði því um 3.234 í fyrra. Samtals bjuggu þar af leiðandi 17.045 einstaklingar á Íslandi um síðustu áramót sem annað hvort fæddust í Póllandi eða eru með pólskt ríkisfang.
Til að setja þá tölu í samhengi þá eru níu af 72 sveitarfélögum landsins með íbúafjölda yfir fimm þúsund. Allir íbúar Reykjanesbæjar voru 16.350 um síðustu áramót og í Garðabæ bjuggu 15.709 manns.
Nýtt met í fjölda aðfluttra í fyrra
Alls fluttust 8.240 manns til Ísland í fyrra umfram þá sem fluttu af landi brott. Langflestir þeirra voru erlendir ríkisborgarar, en 7.888 fleiri slíkir fluttu til Íslands en frá landinu á árinu 2017. Alls fluttust 14.929 til landsins en 6.689 frá því. Það er langmesti fjöldi erlendra ríkisborgara sem hingað hefur flutt á einu ári í sögu landsins. Fyrra metið var sett árið 2007 þegar 12.546 fluttu hingað. Fjöldi aðfluttra í fyrra var því 19 prósent meiri en á fyrra metári.