Dómarafélag Íslands og Lögmannafélagið gera athugasemdir við frumvarp Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra um nýjan Endurupptökudómstól í umsögnum sem félögin hafa sent Alþingi.
Bæði félögin gera athugasemdir við fjölda dómara við þennan nýja fyrirhugaða og skipan þeirra.
Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að fjórir dómarar skipi dóminn, þrír embættisdómarar tilefndir frá hverju dómstigi fyrir sig, héraðdómi, Landsrétti og Hæstarétti. Þá verði fjórði dómarinn skipaður samkvæmt tillögu dómnefndar um hæfni dómara, en sá dómari sé hvorki starfandi dómari, fyrrverandi dómari né starfsmaður dómstóls. Staðan skuli auglýst samkvæmt almennum reglum um auglýsingu á lausum stöðum dómara.
Dómarafélagið segir að ígrunda þurfi vel hvort þessi samsetning sé eins og best verði á kosið. „Markmið þess að hafa dóminn skipaðan að hluta til dómurum sem hvorki eru embættisdómarar né fyrrverandi dómarar, er sú að auka á trúverðugleika hans þar sem viðfangsefni dómsins er öðrum þræði að leggja mat á dómsstörf. Því væri meira jafnvægi á skipan dómsins að hafa tvo dómara sem standa utan réttarkerfisins á móti þremur starfandi dómurum,“ segir í umsögn DÍ.
Félagið telur að gert sé ráð fyrir að starfið sé aukastarf. Miðað við þann málafjölda sem borist hafi endurupptökuenfnd á liðnum árum, 11 til 27 mál á hverju ári, verði að telja að starfið geti orðið það umfangsmikið að tæplega sé unnt að sinna því sem aukastarfi. Nauðsynlegt geti því verið að hafa dóminn skipaðan fleiri dómurum sem komi utan réttarkerfisins, svo unnt sé í raun að sinna starfinu sem aukastarfi. Þá kunni einnig að koma upp sú staða í einstökum málum að æskilegt sé að hafa dóminn skipaðan fleiri en einum dómara sem ekki er jafnframt starfandi dómari.
Loks vekur DÍ athygli á því að málsmeðferð við skipan þessa fjórða dómara samkvæmt lögunum fái vart staðist. Þar er kveðið á um að dómnefnd skuli ekki gera upp á milli hæfni þeirra tveggja umsækjenda sem hún telur hæfasta, nema ef hún telji annan umsækjanda bersýnlega standa hinum framar.
„Ekki er útskýrt í greinargerð hver tilgangur þessa ákvæðis sé en í athugasemdum við málsgreinina er bent á meginreglu stjómsýsluréttar um að ráða skuli hæfasta umsækjanda í starf sem auglýst er. Augljóst er að mati DI að hæfnisnefnd skv.II. kafla laganna er bundin af þessari meginreglu stjómsýsluréttar hvort sem „bersýnilegur“ munur er á milli hæfni umsækjenda eða annar og minni munur. Verður því ekki séð að nefndin geti unnið í samræmi við þá reglu nema með því að leggja mat á hæfni umsækjenda og komast þá jafnframt að þeirri niðurstöðu að einn umsækjanda sé hæfastur. Þá verður heldur ekki séð hvernig unnt er að koma í veg fyrir að nefndin láti af hendi upplýsingar um það atriði, t.d. til umsækjenda, ef eftir því yrði leitað. DÍ leggur til að þetta ákvæði verði fellt brott og almennar reglur um störf nefndarinnar gildi um vinnu hennar.“
Lögmannafélagið segir í umsögn sinni að betur gæti farið á því að dómarar við sérdómstólinn væru aðrir en embættisskipaðir dómarar. Að baki því sjónarmiði byggju þau rök að draga úr þeirri tortryggni sem kunni að fylgja því að embættisdómarar fái valdi til að ákveða hvort dómsmála skuli tekin upp að nýju. Laganefnd LMFÍ setur jafnframt spurningarmerki við að gjafsókn verði ekki veitt vegna endurupptökumála og málskostnaður ekki dæmdur. Telur Laganefnd sér í lagi rök ekki standa til þess að gjafsókn sé fyrirfram útilokuð.