Samkvæmt tölum Þjóðskrár var fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu óbreytt milli mars og apríl. Verð á fjölbýli lækkaði óverulega en verð á sérbýli hækkaði um 0,2 prósent.
Í hagsjá Landsbankans er staðan á fasteignamarkaði gerð að umtalsefni. Verð á fjölbýli hefur hækkað um 4,6 prósent á undanförnu ári og verð á sérbýli um 7,1 prósent.
Heildarhækkun húsnæðisverðs nemur 5,4 prósentum og hefur árshækkunin ekki verið minni síðan um mitt ár 2011, segir í hagsjánni. „Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hafði nú í apríl hækkað um 0,9% á síðustu sex mánuðum, en hækkaði um 4,5% næstu sex mánuði þar á undan. Nýtt og eldra húsnæði Breytingin á þróun húsnæðisverðs um mitt ár í fyrra var mikil og skörp. Allt í einu var eins og skrúfað hefði verið fyrir krana og hækkunartaktur sem hafði verið á hraðri leið upp á við snarstöðvaðist og hefur síðan verið á nokkuð beinni leið niður. Ekki verður séð að neinar grundvallarbreytingar í umhverfi viðskiptanna hafi breyst mikið, t.d. er ekki vitað til um miklar breytingar á lánskjörum eða aðgangi að fjármagni,“ segir í hagsjánni.
Enn fremur segir að væntingar hafi verið uppi um það að framboð af íbúðum á markaði myndi aukast, og við það myndi fasteignaverðið hækka, þar sem fermetraverð nýrra íbúða er jafnan hærra en eldri íbúða.
Hlutfall nýrra íbúða var um 9,5 prósent af heildarviðskiptum í fyrra og hefur verið 10,5 prósent í ár. „Nýjar íbúðir voru reyndar 11,8% dýrari en eldri íbúðir á árinu 2017 og 12,6% dýrari í ár,“ segir í hagsjánni.