Sjálfstæðisflokkurinn nýtur langtum meira fylgis í Grafarvogi, Grafarholti, Úlfarsárdal og á Kjalarnesi en aðrir flokkar.
Þar ætla um 40% íbúa að kjósa flokkinn en meðalfylgi hans í borginni er 26,3%.
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag, en niðurstöðurnar byggja á könnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið, sem fjallað var um í blaðinu í gær.
Fylgi Samfylkingarinnar er langmest í Miðbæ og Vesturbæ, eða 39 prósent. Meðalfylgi flokksins í borginni er 31,8 samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar.
Ljóst er að mikil spenna er fyrir kosningarnar á laugardag í borginni.
Kjarninn og Dr. Baldur Héðinsson framkvæma kosningaspá í aðdraganda hverra kosninga. Það hefur verið gert frá því í borgarstjórnarkosningunum fyrir fjórum árum.
Frá sumrinu 2016 hefur spáin verið keyrð fyrir forsetakosningarnar 2016, þingkosningar 2016 og 2017 og nú komandi borgarstjórnarkosningar. Líkt og greint var frá fyrr í dag þá benda mælingar hennar til þess að meirihlutinn í borginni haldi.
Samhliða er keyrð sætaspá. Hún er framkvæmd þannig að keyrðar eru 100 þúsund sýndarkosningar miðað við fylgi flokka í kosningaspánni sem birt var 23. maí. Í hverri þeirra er úthlutað 23 borgarfulltrúum og þar sem sýndarkosningarnar eru allar með innbyggða óvissu þá getur fylgið í hverri einstakri sýndarkosningu stundum hærra og stundum lægra, þótt meðaltal kosninganna allra sé það sama og kom fram í kosningaspánni. Í gær birtum við hverjar væru líkur hvers og eins frambjóðanda í efstu sætum þeirra lista sem mælast líklegir til að ná inn manni í borgarstjórn eru.