Donald Trump forseti Bandaríkjanna hefur látið leiðtoga Norður-Kóreu, Kim Jong-un, vita að ekki muni verða af fyrirhuguðum fundi þeirra sem átti að fara fram þann 12. júní næstkomandi.
Þetta kemur fram í frétt The New York Times í dag.
Hvíta húsið tilkynnti í byrjun mars að Kim Jong-un hefði átt frumkvæði að því að bjóða Trump til viðræðna. Umræðuefnið á fundinum átti að vera kjarnorkuáætlun Norður-Kóreu og tilraunir með langdrægar flaugar, sem hafa verið harðlega gagnrýndar af alþjóðasamfélaginu og er landið nú beitt hörðum efnahagsþvingunum vegna þeirra.
Meðal þess sem efnahagsþvinganirnar ná til eru víðtækar aðgerðir til að sporna við innflutningi á olíu. Þessar aðgerðir hafa haft lamandi áhrif á efnahagslífið í Norður-Kóreu. Þó það teljist ekki þróað, á vestrænan mælikvarða, þá er landið háð olíu eins og önnur lönd, þegar kemur að framleiðslu og almennu gangverki í efnahagslífi.
Í bréfi Trumps, sem dagsett er síðastliðinn fimmtudag, greinir hann Kim Jong-un frá þeirri ákvörðun að hætta við fundinn en ástæðan sem Trump gefur í bréfinu eru yfirlýsingar hins síðarnefnda og stjórnvalda þar í landi varðandi varaforseta Bandaríkjanna þar sem hann var sagður fávís og heimskur.
Þó greinir Trump frá því, í þessu sama bréfi, að hann hlakki til að hitta Kim Jong-un einhvern tímann í framtíðinni.