Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hefur nú rekið sig á raunveruleikann (Reality Check) segir New York Times, en hætt hefur verið við fund hans og Kim Jong Un, leiðtoga Norður-Kóreu, sem fara átti fram í Singapúr 12. júní.
Í bréfi sem Donald Trump sendi til Kim Jong Un, og birt hefur verið á vef Hvíta hússins, segir að það sé ekki viðeigandi að eiga fund núna, í ljósi þess sem Kim Jong Un hefur látið hafa eftir sér - og túlka megi sem reiði eða yfirlæti - og því sé fundi þeirra slegið á frest.
Sadly, I was forced to cancel the Summit Meeting in Singapore with Kim Jong Un. pic.twitter.com/rLwXxBxFKx
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) May 24, 2018
Á vef Bloomberg má þó lesa, að Kim Jong Un vilji fund með Trump. Kim Gye Gwan, utanríkisráðherra Norður-Kóreu, segir í yfirlýsingu, sem birtist fyrst á vef Bloomberg, að það sé vilji Norður-Kóreu að eiga fund.
Í bréfi Trumps kemur fram hótun um að beita kjarnorkuvopnum, ef ekki er orðið við því sem Bandaríkin segja í yfirlýsingu.
Bandaríkin, með samþykki Sameinuðu þjóðanna, hafa beitt Norður-Kóreu efnahagsþvingunum vegna tilrauna þeirra með langdrægar flaugar og kjarnorkuvopn. Í þvingunum hefur meðal annars falist að hefta innflutning á olíu til Norður-Kóreu og hefur það veikt efnahag landsins verulega, en um 25 milljónir manna búa í Norður-Kóreu, en um 50 milljónir í nágrannaríkinu Suður-Kóreu.