Verðmiðinn á fasteignafélaginu Heimavöllum hefur haldið áfram að falla í dag, en virði félagsins lækkaði um 11 prósent á fyrsta viðskiptadegi félagsins á aðallista kauphallar Íslands í gær. Í dag hefur virðið haldið áfram að falla, og er gengi bréfa félagsins nú komið í 1,2 en það var 1,39 við skráningu félagsins á markað.
Lækkunin í dag er 3,23 prósent og hefur verðmiðinn því lækkað um meira en tvo milljarða frá skráningu, en hann var 15,6 milljarðar króna þegar félagið var skráð á markað.
Efnahagur félagsins er stór, en heildareignir félagsins nema um 55,9 milljörðum króna, og eru að langstærstu hluta í fasteignum sem félagið á og leigir út. Eigið fé félagsins var við skráningu 17,6 milljarðar króna.
Eins og greint var frá í dag, í ítarlegri fréttaskýringu á vef Kjarnans, er íslenska ríkið alltumlykjandi í rekstri félagsins og sögu þess, þar sem félagið er með stærstan hluta fjármögnunar sinnar hjá Íbúðalánasjóði, og hefur einnig keypt eignir af ríkinu í gegnum tíðina.
Samkvæmt lista yfir stærstu hluthafa Heimavalla er félagið Túnfljót ehf. 5. stærsti hluthafi félagsins, en það er í eigu Magnúsar Pálma Örnólfssonar, fjárfestis og fyrrverandi starfsmanns Glitnis banka, en hann var um tíma yfirmaður eigin viðskipta bankans.
Samkvæmt viðskiptayfirliti frá því í gær, sem Kjarninn hefur undir höndum, þá færði Túnfljót ehf. um það bil einn tíunda af eign sinn í Heimavöllum í gær yfir í annað félag.
Við skráningu átti félagið tæplega 500 milljónir hluta í félaginu, eða um 4,4 prósent af heildarhlutafé félagsins. Eftir færslu gærdagsins var hluturinn kominn í 3,99 prósent, og heildareignir í 449 milljónir hluta.
Leiðrétting: Í upphaflegri frétt var sagt að Túnfljót hefði selt einn tíunda af eign sinni, en hið rétta er að hluturinn var færður í annað félag, í eigum Magnúsar Pálma, að því er hann hefur staðfest sjálfur við Fréttablaðið. Hefur umfjöllunin verið uppfærð í samræmi við þetta.