Börn sem eru innflytjendur, önnur kynslóð innflytjenda eða eiga annað foreldri sem er erlent voru alls 15.634 í upphafi árs í fyrra. Fjöldi þeirra hefur þrefaldast á tæpum tveimur áratugum og aukist um 65 prósent frá byrjun árs 2007. Fjöldi þeirra hefur tvöfaldast á einum áratug.
Þetta kemur fram í nýbirtum tölum frá Hagstofu Íslands um stöðu barna á Íslandi.
Í ljósi þess að innflytjendum hefur aldrei fjölgað jafn hratt á Íslandi og þeim gerði í fyrra má gera ráð fyrir að börnum innflytjenda hafi fjölgað enn frekar á því. Í fyrra fluttu 7.888 erlendir ríkisborgarar til landsins umfram þá sem fluttu frá því. Fjöldinn hefur aldrei verið meiri á einu ári í Íslandssögunni. Á fyrsta ársfjórðungi þess árs fjölgaði erlendum ríkisborgurum um 1.090 talsins. Það er um 37 prósent af þeirri aukningu sem varð á fjölda erlendra ríkisborgara á Íslandi á sama tímabili í ár.
Flest tala pólsku
Í tölum Hagstofunnar kemur einnig fram að á meðal leiksskólabarna séu 12,6 prósent með erlent móðurmál og 9,3 prósent barna í grunnskólum eru með slíkt.
Stærstu hóparnir sem voru með erlent móðurmál í leik- og grunnskólum landsins voru með pólsku sem móðurmál. Af 2.410 leikskólabörnum með erlent móðurmál voru 38,7 prósent með pólsku og af 4.148 grunnskólabörnum með erlent móðurmál voru 35,4 prósent með pólsku.
Alls sóttu 176 börn um hæli á Íslandi í fyrra. Það eru færri en árið áður þegar þau voru 271 talsins og höfðu aldrei verið fleiri.
Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að Pólverjar á Íslandi væru orðnir 17 þúsund talsins. Fjöldi þeirra sem annað hvort eru fæddir í Póllandi eða eru pólskir ríkisborgarar en búa á Íslandi hefur því 21faldast á 20 árum.
Fjölgar hratt
Í byrjun árs 2017 voru 2.453 börn á Íslandi innflytjendur, 4.135 voru önnur kynslóð innflytjenda, 7.108 voru fædd á Íslandi en áttu eitt foreldri sem var erlent og 1.938 voru fædd erlendis en áttu annað foreldri sem var erlent. Samtals gera þetta 15.634 börn sem voru þá 4,6 prósent allra landsmanna. Það fjölgaði um fimm prósent í öllum þessum hópi á milli ára og börn sem eru innflytjendur fjölgaði um 10,4 prósent á árinu 2016 einu saman.
Árið 1998 tilheyrðu 5.295 börn þessum hópi og því hefur hann þrefaldast á tæpum tveimur áratugum. Það ár voru þessi börn 1,9 prósent landsmanna.
Á árinu 2007 voru börnin með erlendu tengingarnar 9.460, eða þrjú prósent þjóðarinnar.