Frumvarpi um persónuvernd og vernd persónuupplýsinga, sem beðið hefur verið eftir með nokkurri eftirvæntingu, var útbýtt seinni partinn í gær á vef Alþingis.
Með frumvarpinu er vernd persónuupplýsinga kollvarpað. Um er að ræða umfangsmestu breytingar sem gerðar hafa verið á persónuverndarlöggjöfinni í tvo áratugi sem staðfesta að sá grundvallarréttur sem felst í vernd persónuupplýsinga einstaklinga verði tryggður fyrir alla. Reglurnar munu einnig efla hinn stafræna innri markað Evrópu með því að tryggja öryggi í þjónustu sem veitt er yfir netið og veita fyrirtækjum réttarvissu sem byggist á skýrum og samræmdum reglum.
Frumvarpið byggir á nýrri persónuverndarreglugerð sem tók gildi í Evrópu í síðustu viku. Til stóð að setja lög í íslenskan rétt áður en að reglugerðin tæki gildi en það náðist ekki.
En nú er frumvarpið fram komið, heildar 147 blaðsíður að lengd og aðeins fimm þingfundardagar eftir með deginum í dag. Fyrsta umræða um frumvarpið er fyrirhuguð á þingfundi í dag, verði það leyft í ljósi þess að það er of seint fram komið.
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og lögfræðingur, segist í samtali við Kjarnann telja að umfang og afleiðingar þessarar lagasetningar sé með þeim hætti að þinginu sé varla stætt á því að taka sér sumarfrí.
„Ég fagna því auðvitað að þetta frumvarp sé fram komið. Ég vildi líka að við gætum fryst tímann. En það er glórulaust að leggja fram viðlíka lög á þessum tímapunkti og fullkomlega óábyrgt,“ segir Helga Vala.
Hún segir um að ræða svo víðtæk lög, sem varði grundvallarrétt einstaklinga, almennings á persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga í gengum allt kerfið. „Það er verið að gjörbreyta öllu kerfinu hjá opinberum stofnunum og fyrirtækjum, að viðlagðri refsiábyrgð. Það er gerð ákveðin krafa um skýrleika laga sem mér sýnist þetta frumvarp til dæmis ekki uppfylla.“
Helga Vala segist ekki sjá hvernig þingið eigi að ná að klára að afgreiða lögin „nema við bara sleppum því alveg að fara í sumarfrí og það er þá bara fínt. Þá þarf bara að ákveða það núna og vera ekki með þessa blekkingu. Ég ætla ekki að vera að stuðla að svona hrákasmíð og hleypa svona hrákasmíð í gengum þingið.“
Hún segir að Björg Thorarensen, prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands og stjórnarformaður Persónuverndar, hafi talað um að það þurfi að minnsta kosti að fjórfalda starfsmannafjöldann hjá Persónuvernd til að halda utan um allt það sem breytist með gildistöku laganna, eftirlit og annað.
Meðal þess sem kveðið er á um í frumvarpinu er heimild Persónuverndar til að leggja dagsektir allt að 200 þúsund krónur, sem og stjórnvaldssektir á ábyrgðar- eða vinnsluaðila frá 100 þúsund krónum upp í 2,4 milljarða eða allt að 4 prósentum af árlegri heildarveltu fyrirtækisins á heimsvísu ef brotið er gegn ákveðnum ákvæðum laganna.
„Ætlar þingið í alvöru að afgreiða svona refsiheimildir á korteri núna fyrir þinglok,“ spyr Helga Vala. Hún segir raunverulega ástæðu fyrir því að reglur þingsins kveði á um að mál eigi að berast fyrir 1. apríl. Það sé gert til að tryggja að ekki sé farið með lög í gegn á hundavaði. Afbrigði séu veit til að leyfa minniháttar breytingar. „Þetta eru ekki einhverjar einfaldar lagabreytingar. Þetta eru grundvallarbreytingar á öllu kerfinu.“
Helga Vala spyr um ábyrgð þingmanna. „Ætla þingmenn í alvöru að bera ábyrgð á svona fúski? Ætla þingmenn í alvöru að bera ábyrgð á því að leggja 2,4 milljarða króna sektir á lögaðila með svona vinnubrögðum?“