Óformlegar viðræður oddvita Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna um málefnagrunn hafa leitt til þeirrar sameiginlegu niðurstöðu að hefja formlegar meirihlutaviðræður. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, oddvita Viðreisnar í Reykjavík.
Þar segir að viðræðurnar muni hefjast á morgun, fimmtudag, og að tveir fulltrúar frá hverjum flokki taki þátt í þeim. „Markmiðið er að samstarfssáttmáli nýs meirihluta liggi fyrir í góðum tíma fyrir fyrsta borgarstjórnarfund nýrrar borgarstjórnar 19. júní nk. Trúnaður mun ríkja um viðræðurnar en niðurstöður þeirra verða kynntar þegar þær liggja fyrir.“
Kjarninn greindi frá því í morgun að ekki margt sem út af bæri til að hægt sé að ná þessum meirihluta saman. Stefnur flokkanna fjögurra liggja saman í skipulags- og samgöngumálum og allir eru þeir tilbúnir í miklar aðgerðir til að auka enn í uppbyggingu húsnæðis í borginni til að tryggja fleiri borgarbúum húsnæði á kjörum sem þeir ráða við. Í því samhengi má benda á að Viðreisn var með það í stefnuskrá sinni að byggja 350 félagslegar íbúðir á kjörtímabilinu.
Viðreisn mun fara fram á að stefna flokksins í atvinnumálum, meðal annars lækkun á fasteignasköttum á fyrirtæki, og í menntamálum fái gott pláss í sáttmála meirihlutans. Auk þess er mikil áhersla á að einfalda kerfið þannig að þeir sem þurfi t.d. að fá ýmis athafnaleyfi geti gert það með minna flækjustigi. Viðreisn mun líka leggja áherslu á að fastar verði haldið um rekstur borgarinnar, en mörgum þar þykir hann ekki í nægilega góðum farvegi með aukinni skuldasöfnun í miðri uppsveiflu.