Eignarhaldsfélagið LBI, sem heldur utan um eignir gamla Landsbankans, hefur gengið frá greiðslu upp á 2,1 milljarð króna til ríkisins. Fjármunirnir komu frá útgerðarfélaginu Brimi, þar sem Guðmundur Kristjánsson er aðaleigandi, en Hæstiréttur dæmdi félagið til að greiða LBI fjármunina eftir deilur fyrir dómi.
Frá þessu er greint í Markaðnum í dag, en peningurinn fór til Seðlabanka Íslands sem viðbóta við stöðugleikaframlagið sem kom frá þrotabúum hinna föllnu banka.
Að því er fram kemur í Markaðnum þá samdi LBI við Seðlabankann fyrir rúmlega ári um að greiðslur myndu ekki fara til bankans fyrr en niðurstaðan lægi fyrir í dómsmáli Brims gegn LBI.
Greiðslurnar má rekja til gjaldmiðlaskiptasamninga sem gerðir voru skömmu fyrir hrun bankanna, en upphaflega voru það um 760 milljónir með dráttarvöxtum.
Hæstiréttur dæmdi í málinu á haustmánuðum 2016.