Stjórnarandstaðan var allt annað en sátt við dagskrá ríkisstjórnarinnar í dag og mótmælti henni harðlega. Þannig er á dagskránni, nú þremur dögum fyrir þinglok, nýtt frumvarp um lækkun veiðigjalda auk nýrrar persónuverndarreglugerðar og annarra mála. Gert var hlé á þingfundi til klukkan 14:00 til að reyna að ná sáttum um dagskrá. Á dagskránni eru 10 atriði á undan veiðigjöldunum.
Heimildir Kjarnans herma að stjórnarandstaðan muni hægja eins og kostur gefst á dagskránni, í raun fara í málþóf til að koma í veg fyrir að veiðigjöldin komist til umræðu. Verði samþykkt að halda kvöldfund ætlar andstaðan að tala inn í nóttina.
Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, krafðist þess að veiðigjöldin yrðu tekin af dagskrá. Um stórpólitískt mál væri að ræða. „Það er verið að tala um að lækka veiðigjöldin um tæpa 3 milljarða kr. Ríkisstjórnin treystir sér ekki til þess að fara með málið í gegnum þingflokka og hér inn í þingsal og lætur þingmenn í atvinnuveganefnd bera það hingað inn. Satt að segja, herra forseti, er það að setja málið hér á dagskrá eins og blaut tuska framan í okkur þingflokksformenn sem höfum unnið eftir ákveðnu samkomulagi þegar kemur að þingmannamálum. Það er verið að brjóta það kirfilega. Það er óásættanlegt. Við munum ekki taka það í mál að svona sé komið fram við þingið og þingflokksformenn. Málið verður ekki á dagskrá þingsins í dag,“ sagði Oddný.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti þingsins, ítrekaði þá að málið sé sannarlega á dagskrá þingsins. „Forseti ákveður dagskrá.“ Hann sagðist líta svo á að þegar meirihluti í þingnefnd telji brýnt að takast á við tiltekin mál þegar frumvörp þar um eru lögð fram.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, sagði dagskrá þingsins ekki í neinu samræmi við það sem unnið hafi verið eftir undanfarnar vikur og mánuði. „Í fyrsta lagi verð ég að segja að þegar farið var inn í hléið fyrir sveitarstjórnarkosningar var gert samkomulag um að ákveðin mál yrðu afgreidd úr nefnd. Ég spyr forseta: Hvers vegna er ekki staðið við það?“
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, sagði hér um að ræða enn eitt málið sem fái óeðlilega málsmeðferð án samráðs, án samkomulags, í þessu þingi í krafti meirihluta þings sem lofaði því að efla Alþingi. „Forseti setur ofan í við háttvirtan þingmann Oddnýju Harðardóttur og segist hafa dagskrárvaldið hér, sem er alveg rétt, en ég vil minna hæstvirtan forseta á að hann skal hafa samráð við þingflokksformenn sem ekki var gert um þetta mál. Forsætisnefnd kemur þar að líka. Ég hefði haldið að þegar komið er að dagskránni á þinginu ynnum við að henni í sameiningu og gætum kannski talað út um málin áður við þröngvuðum stórpólitískum málum í gegn korteri fyrir þinglok án nokkurs samráðs eða samkomulags og þvert á það sem sagt hefur verið.“
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði það ótrúlega stöðu að henda inn viðlíka sprengju eins og nú hafi verið gert af hálfu meirihluta atvinnuveganefndar. „Það vita allir hvers konar pólitísk sprengja þetta er. Við formann atvinnuveganefndar vil ég segja, vegna þess að hún útskýrir þetta með því að útgerðin sé komin að þolmörkum, að fleiri eru komnir að þolmörkum. Öryrkjar eru komnir að þolmörkum. Heilbrigðiskerfið er komið að þolmörkum. Vegirnir okkar eru komnir að þolmörkum. Lögreglan og fleiri og fleiri. Af hverju er hugsa hæstvirtir þingmenn Vinstri grænna ekki um það? Hvernig stendur á því að hæstvirtir þingmenn hugsa fyrst um útgerðina en ætla enn einu sinni að gleyma barnafjölskyldum og öryrkjum?“
Fulltrúar stjórnarandstöðunnar komu síðan hver á fætur öðrum upp í pontu til að lýsa óánægju sinni um þessi vinnubrögð atvinnuveganefndar og forseta þingsins og er enn að.