Framteljendur á skattgrunnskrá hafa aldrei verið fleiri en á grunnskrá voru nú voru alls 297.674. Það eru 10.946 fleiri framteljendur en fyrir ári sem er fjölgun um 3,8 prósent. Framteljendum á grunnskrá hefur ekki fjölgað jafnmikið síðan árið 2007 en þá fjölgaði um 10.855.
Skattar 17.973 einstaklinga voru áætlaðir en það er um 6,04% af heildarfjölda. Nokkur hluti áætlana skýrist af framtölum sem ríkisskattstjóri vinnur fyrir framteljendur en slík framtöl hafa sömu réttaráhrif og þegar skattstofnar eru áætlaðir.
Á morgun munu inneignir verða lagðar inn á bankareikninga þeirra framteljenda sem eiga inni hjá ríkissjóði eftir álagningu. Þeir framteljendur sem ekki hafa bankareikning geta vitjað inneigna hjá innheimtumönnum ríkissjóðs, í Reykjavík tollstjóra.
Tekjuskattur og útsvar sveitarfélaga höfðu að mestu verið innheimt í staðgreiðslu. Álagning er endanlegt uppgjör skatta, auk þess sem lagt er á útvarpsgjald, gjald í Framkvæmdasjóð aldraða, slysatryggingargjald vegna heimilisstarfa, og tryggingargjalds einstaklinga í eigin rekstri. Barnabætur og vaxtabætur eru þar að auki reiknaðar við álagningu.
Hefðbundin pappírsframtöl heyra brátt sögunni til en nú skiluðu 99,5 prósent framteljenda rafrænu skattframtali. Framtöl eru að mestu leyti unnin fyrir fram af ríkisskattstjóra. Framtalsgerðin er að mestu leyti fólin í yfirlestri og staðfestingu upplýsinga. Þannig hafa betri skil gagna og aðstoð við framteljendur fækkað villum og einfaldað framtalsgerð.