Tveir erlendir fjárfestingarsjóðir, sem hafa verið umsvifamiklir í fjárfestingum í skráðum félögum í Kauphöllinni síðustu misseri, hafa skuldbundið sig til að kaupa umtalsverðan eignarhlut í Arion banka í boðuðu hlutafjárútboði bankans í júní, að því er fram kemur í Fréttablaðinu í dag.
Fjárfestingarsjóðirnir munu kaupa á bilinu 10 til 20 prósent af þeim bréfum sem verða samtals seld í útboðinu, samkvæmt því sem fram kemur í Fréttablaðinu í dag.
Íslenska ríkið átti 13 prósent hlut í bankanum, en hefur selt hann á rúmlega 23 milljarða króna. Sé miðað við það var verðmiðinn á bankanum um 180 milljarðar króna.
Áætlað er að selja að lágmarki fjórðungshlut í útboðinu, mögulega meira, og eignarhlutur sjóðanna í Arion banka eftir útboðið gæti því samanlagt verið í kringum 3 til 5 prósent.
Fossar markaðir, sem er á meðal söluráðgjafa Kaupþings, stærsta eiganda bankans, í tengslum við hlutafjárútboðið, hefur milligöngu um viðskiptin.