Þeir fjórir flokkar sem nú ræða myndun nýs meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur fengu samtals 27.328 atkvæði í kosningunum um síðustu helgi. Þeir eru Samfylking, Viðreisn, Píratar og Vinstri græn.
Verðandi minnihluti, sem mun samanstanda af Sjálfstæðisflokki, Sósíalistaflokki Íslands, Miðflokki og Flokki fólksins fékk hins vegar 28.028.
Alls kusu 60.422 af þeim 90.135 sem voru á kjörskrá í kosningunum. Það þýðir að kjörsókn var 67 prósent. Alls kusu 5.066 því önnur framboð en þau sem komust inn, eða skiluðu auðu. Af þeim átta framboðum sem fengu atkvæði en komust ekki inn í borgarstjórn fékk Framsóknarflokkurinn flest atkvæði, eða 1.870 talsins. Fæst atkvæði fengu annars vegar Íslenska þjóðfylkingin (125 atkvæði) og hins vegar Frelsisflokkurinn (142 atkvæði).
Því fóru 5.766 fleiri atkvæði til flokka sem verða líklega í minnihluta, náðu ekki inn eða voru auð en til þess meirihluta sem er í mótun.
Staðan breytist ef Sósíalistaflokkur er klofinn frá
Verðandi minnihluti er þó ekki einn samstæður hópur, og hefði aldrei getað myndað meirihluta saman af tveimur ástæðum: Sósíalistaflokkurinn neitar að vinna með Sjálfstæðisflokknum og Sósíalistaflokkurinn ætlar ekki að taka þátt í meirihlutasamstarfi yfir höfuð.
Ef Sósíalistaflokkurinn, sem fékk 3.758 atkvæði, er aðskilinn frá, og látinn standa sér þar sem hann ætlar sér ekki að vinna með neinum flokkum, þá eru hinir þrír flokkarnir í væntanlegum minnihluta með 24.270 atkvæði. Í ljósi þess að Viðreisn taldi sig eiga meira sameiginlegt með Samfylkingu, Pírötum og Vinstri grænum en Sjálfstæðisflokki, Flokki fólksins og Miðflokki þá þá er sú blokk sem vinnur að myndun meirihluta stærri en sú oftast var nefnd sem næst líklegasti möguleikinn í stöðunni.