Cecilia Malmstrom, framkvæmdastjóri Evrópusambandsins þegar kemur að viðskiptum, segir að tollamúra Donalds Trumps gagnvart Evrópusambandinu, Kanada og Mexíó - og eftir atvikum fleiri ríkjum - vera hættulegan leik.
Þetta kemur fram í umfjöllun breska ríkisútvarpsins BBC, en líkur eru nú taldar á því að allsherjar tollastríð muni brjótast út vítt og breitt um heiminn, ef Bandaríkin halda aðgerðunum sínum til streitu.
Hún segir að Evrópusambandið muni láta reyna á það hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni hvort þessar aðgerðir standist lög.
Í gær tóku ákvarðanir Trumps og bandarískra stjórnvalda gildi, en í þeim felst að innflutt stál frá Evrópusambandsríkjum, Kanada og Mexíkó ber 25 prósent toll og innflutt ál frá sömu ríkjum 10 prósent toll.
Evrópusambandið hefur þegar sagt, að það muni bregðast við með tollum á innflutning á vörum frá Bandaríkjunum, jafnvel þó það sé ekki vilji sambandsins að fara í tollastríð við Bandaríkin. Það sé ekki hægt að sitja hjá og gera ekkert, þar sem aðgerðir stjórnvalda í Bandaríkjunum séu bæði rangar og geti leitt af sér mikla erfiðleika að óþörfu.
Macron Frakklandsforseti hefur þegar upplýst um það, að hann hafi hringt í Trump og sagt að tollarnir á Evrópusambandið væru skýrt brot á alþjóðalögum. Trump hefur svarað því til, að Bandaríkin geti gert það sem þau vilji og telji best fyrir Bandaríkin. Þar á meðal sé að vernda bandarísk fyrirtæki í málmiðnaði. Hann gekk raunar svo langt í gær, að segja að tollarnir væru í þjóðaröryggismál.