Bresk stjórnvöld greindu frá því í gær að þau vilji selja 7,7 prósenta hlut í Royal Bank of Scotland. Seldir verða 925 milljón hlutir í bankanum og er gert ráð fyrir að söluandvirðið muni nema allt að 2,6 milljörðum punda sem jafngildir tæplega 365 milljörðum króna miðað við núverandi gengi.
Stjórnarandstaðan í Bretlandi er ósátt við þessi áform, enda er söluverðið langt undir því sem það þarf að vera, ef breskir skattgreiðendur eiga að fá peninginn til baka sem lagður var til bankans fyrir um áratug í fjármálakreppunni.
Í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC segir John McDowell, sem fer fyrir skuggaráðuneytið breska Verkamannaflokksins þegar kemur að fjármálum, að það eigi alls ekki að selja þennan hlut í bankanum, allra síst á verði sem gerir það að verkum að breskir skattgreiðendur tapa háum fjárhæðum á því að hafa bjargað bankanum.
Efir söluna mun breska ríkið eiga 62,4 prósenta hlut í bankanum.
Rekstur Royal Bank of Scotland hefur gengið illa undanfarinn áratug, en taprekstur hefur verið af rekstri bankans í níu ár af síðustu tíu. Í fyrra varð í fyrsta skipti hagnaður af rekstrinum, frá því breska ríkið koma bankanum til bjargar og þjóðnýtti hann að mestu. Búist er við því að hagnaður verði einnig á þessu ári.