Umfangsmiklar aðgerðir fóru fram í síðustu viku í tengslum við söluna á Skeljungi árið 2008. Íslandsbanki kærði söluna til lögreglu árið 2016. Frá þessu var greint í fréttum RÚV í kvöld.
Voru Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Guðmundur Þórðarson meðal annars handtekin, samkvæmt heimildum Kjarnans. Enginn var þó settur í gæsluvarðhald, en Svanhildur Nanna sagði sig frá stjórnarformennsku í VÍS í kjölfar þessara aðgerða.
Grunur leikur á umboðssvikum, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Skeljungur og færeyska olíufélagið P/F Magn voru í eigu Glitnis banka þegar félögin voru seld út úr bankanum árið 2008.
Félagið sem keypti var í í meirihlutaeigu fyrrnefndu hjónanna Guðmundar og Svanhildar Nönnu, og Birgis Bieltvedts fjárfestis. Sá sem hélt utan um söluna hjá Glitni var Einar Örn Ólafsson sem varð síðar forstjóri Skeljungs.
Svanhildur Nanna sendi frá sér yfirlýsingu, eftir fréttir RÚV í kvöld, sem hefur verið birt í heild sinni á vefnum.
Í henni segir meðal annars: „Kaup okkar á hlutum í umræddum félögum bar að með eðlilegum hætti og við teljum einsýnt, að opinber rannsókn á viðskiptunum muni eyða öllum vafa um réttmæti þeirra. Við höfum veitt fulltrúum héraðssaksóknara allar þær upplýsingar sem þeir hafa óskað eftir og munum áfram aðstoða þá við rannsóknina. Við höfum að eigin frumkvæði greint Fjármálaeftirlitinu frá henni, stjórnendum og regluvörðum þeirra skráðu félaga sem við tökum þátt í að stýra. Rétt er að árétta, að þau félög tengjast rannsókninni ekki á nokkurn hátt. Við munum áfram sitja í stjórnum félaganna, en Svanhildur Nanna ákvað að láta öðrum eftir stjórnarformennsku í VÍS hf. á meðan rannsóknin stendur yfir.“
Yfirlýsinguna í heild sinni má lesa á vef RÚV.