Kristín Þorsteinsdóttir sem verið hefur aðalritstjóri og útgefandi Fréttablaðsins síðastliðin fjögur ár hættir sem ritstjóri og verður aðeins útgefandi auk þess sem hún mun „einbeita sér að rekstri fréttastofunnar“.
Þetta kemur fram í frétt Fréttablaðsins þar sem segir frá nýju skipuriti Torgs ehf., útgáfufélagi Fréttablaðsins sem er í eigu Ingibjargar Pálmadóttur forstjóra félagsins.
Ritstjórar Fréttablaðsins verða: Kjartan Hreinn Njálsson og Ólöf Skaftadóttir auk þess sem Sunna Karen Sigurþórsdóttir verður ritstjóri vefútgáfu Fréttablaðsins. Hörður Ægisson mun áfram ritstýra Markaðnum, viðskiptablaði Fréttablaðsins.
Þá hefur verið stofnuð ný deild, Stafræn verkefni, IT og markaðsmál og mun Jóhanna Helga Viðarsdóttir stýra henni þvert á svið. Sigrún L. Sigurjónsdóttir mun áfram stýra fjármálasviði og Elmar Hallgríms Hallgrímsson sölu, greiningum og dreifingu.
Í fréttinni segir að markmið nýs skipulags sé að „efla alla þætti starfsseminnar með sérstaka áherslu á stafrænan hluta og um leið skilgreina verksvið betur með það að markmiði að bjóða neytendum og auglýsendum betri fjölmiðla“.