Lánveitingar Íbúðalánasjóðs (ÍLS) til félags sem átti að vera með óhagnaðardrifna leigustarfsemi var til skoðunar hjá Fjármálaeftirlitinu (FME) í fyrra. Eftirlitið gerði athugasemdir við útlán Íbúðalánasjóðs til óhagnaðardrifinna leigufélaga vegna þess að þau hafi í raun verið rekin í hagnaðarskyni.
Frá þessu var greint í fréttum RÚV í kvöld.
Þar kemur einnig fram að félagið Heimavellir séu til sérstakrar skoðunar hjá Íbúðalánasjóði eftir skráningu þess á markað í síðasta mánuði, en líkt og Kjarninn hefur fjallað um þá er stór hluti af fjármögnun félagsins komin frá Íbúðalánasjóði í gegnum lán sem ætluð eru leigufélögum með óhagnaðadrifna starfsemi.
Anna Guðmunda Ingvarsdóttir segir í viðtali við RÚV, að Íbúðalánasjóður starfi eftir þeim ramma sem lög og reglur setja. Nú sé sérstaklega verið að skoða fjármögnun sem sjóðurinn hefur veitt Heimavöllum en eins og Íbúðalánasjóður hefur samtals lánað 18,4 milljarða króna til kaupa eða bygginga á 1.325 íbúðum á grundvelli reglugerðar sem ætlað er að tryggja að lánveitingarnar fari einungis til aðila sem ekki eru reknir í hagnaðarskyni.
Þar af eru um tólf milljarðar króna lán til hlutafélaga eða einkahlutafélaga. Um átta milljarðar króna af þeirri upphæð eru lán til Heimavalla, stærsta leigufélags landsins sem starfar á almennum markaði. Því eru 43,4 prósent allra útistandandi lána Íbúðalánasjóðs sem veitt hafa verið í samræmi við skilyrði reglugerðarinnar til Heimavalla. Alls skuldar félagið Íbúðalánasjóði 18,6 milljarða króna, en hluti þeirra lána eru svokölluð almenn leiguíbúðarlán sem um gilda mun rýmri reglur.
Heimavellir voru skráðir á markað í síðasta mánuði og stefna að því að endurfjármagna lánin frá Íbúðalánasjóði svo félagið geti losnað undan þeim kvöðum sem þau setja um að þiggjendur lánanna megi ekki greiða út arð.
Reglugerð 1042/2013 snýst um að Íbúðalánasjóður, sem er í eigu ríkisins, veiti lán til sveitarfélaga, félaga og félagasamtaka sem ætlaðar eru til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum. Markmið reglugerðarinnar var að „stuðla að framboði á leiguíbúðum fyrir almenning á viðráðanlegum kjörum“.
Samkvæmt upplýsingum frá Íbúðalánasjóði hefur hann lánað til alls 25 félaga og félagasamtaka á grundvelli heimildarinnar. Þar af er eitt hlutafélag, 17 einkahlutafélög, þrjár sjálfseignarstofnanir, tvö húsnæðissamvinnufélög, eitt byggðasamlag og ein félagasamtök.
Heimavellir er með nokkuð stóran efnahag, en heildareignir þess nema tæplega 56 milljörðum króna, og nam eigið fé félagsins 17,6 milljörðum króna í lok árs í fyrra.