Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað kyrrsetningarkröfu Datacell og Sunshine Press Productions (SPP) á eignum Valitor.
Í tilkynningu frá Valitor segir að þessi niðurstaða komi ekki á óvart. „Ákvörðunin kemur ekki óvart enda telur Valitor að kyrrsetningarkrafan hafi ekki átt við nein rök að styðjast, auk þess sem Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hafði áður hafnað sömu kröfu. Valitor vill jafnframt nota tækifærið til að vísa á bug söguburði í fjölmiðlum þess efnis að lögmaður Datacell og SPP hafi átt í einhvers konar samningaviðræðum við Valitor um uppgjör á kröfum þessara fyrirtækja á hendur félaginu. Engar slíkar viðræður hafa átt sér stað,“ segir í tilkynningunni.
Þá er enn fremur bent á það, að stærstur hluti krafna framangreindra félaga á hendur Valitor sé í eigu Julian Assange, forsprakka Wikileaks.
Í tilkynningu segir að félag Assange hafi aldrei átt í neinu viðskiptasambandi við Valitor. „Vert er að benda á að langstærstur hluti krafna framangreindra félaga á hendur Valitor, eða um 95%, er krafa SPP sem er að langmestu leyti í eigu Julian Assange. Það félag hefur aldrei átt í neinu viðskiptasambandi við Valitor. Auk þess hefur félagið aldrei haft nema hverfandi tekjur en gerir samt milljarða kröfur á hendur fyrirtækinu. Valitor hefur frá upphafi talið að enginn grundvöllur sé fyrir kröfugerð SPP og hefur því ítrekað hafnað henni. Auk þess er vert að minna á að enginn dómur hefur fallið um kröfugerð SPP,“ segir í tilkynningunni.