Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ætlar að skipa nefnd um endurskoðun laga um Seðlabanka Íslands þar sem munu eiga sæti tveir fulltrúar forsætisráðuneytisins, tveir fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytisins og einn fulltrúi Seðlabanka Íslands. Nefndin á að ljúka störfum fyrir 31. janúar 2019. Þessi áform voru tilkynnt á ríkisstjórnarfundi í gærmorgun.
Vinna nefndarinnar mun m.a. byggja á skýrslu nefndar um endurskoðun peningastefnu Íslands sem skilað var 5. júní síðastliðinn.
Í þeirri skýrslu er gengið út frá því að íslenska krónan verði áfram gjaldmiðill landsins en meðal annars lagst gegn því að Ísland taki upp myntráð og fastgengisstefnu og sagt að landið eigi ekki að reka peningastefnu með stuðningi hafta. Þess í stað eru lagðar til alls ellefu tillögur sem lúta að breytingum á peningastefnunni og starfsháttum Seðlabanka Íslands.
Í nefndinni, sem skipuð var í mars í fyrra og skilaði skýrslu sinni í dag, sátu hagfræðingarnir Ásgeir Jónsson, sem var formaður hennar, Ásdís Kristjánsdóttir og Illugi Gunnarsson, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins.
Hægt er að lesa fréttaskýringu Kjarnans um skýrslu nefndarinnar hér.