Ríkisstjórnin hefur samþykkt að setja 64 milljónir króna á einu ári í átaksverkefni um hert eftirlit með heimagistingu, líkt og Airbnb og öðrum sem veita sambærilega þjónustu. Gera ráð fyrir að að einungis sektargreiðslur vegna skráningarleysis geti numið um 50 milljónum króna og að bætt skattskil muni skila fjárfestingunni til baka hratt og örugglega.
„Samtök ferðaþjónustunnar hafa lengi bent á að skera þurfi upp herör gegn leyfislausri og ólöglegri gististarfsemi hér á landi sem að miklu leyti þrífst undir merkjum Airbnb. Við fögnum því þessu átaki stjórnvalda, enda teljum við einsýnt að öflugt eftirlit skili árangri. Þá er vert að þakka Þórdísi Kolbrúnu [Reykfjörð Gylfadóttur], ráðherra ferðamála, fyrir hennar forystu í málinu. Með átakinu er síðan vonandi verið að tryggja ferðaþjónustufyrirtækjum heilbrigða samkeppni og samkeppnishæf rekstrarskilyrði“ segir Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar í samtali við Kjarnann.
Samkvæmt upplýsingum frá ferðamálaráðuneytinu er lagt upp með að átakið feli í sér fjölgun starfsmanna við eftirlit og mun sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hafa metið þörf á að ráða alls átta starfsmenn, fjóra á heimagistingarvakt, tvo sérfræðinga og tvo lögfræðinga. Hlutverk starfsmanna á heimagistingarvakt er að framkvæma vettvangsrannsóknir í kjölfar kvartana eða ábendinga frá almennum borgurum eða á grundvelli upplýsinga sem koma fram í frumkvæðiseftirliti. Þá yrðu sérfræðingar fengnir til verkefna sem tengjast bakvinnslu vegna skráninga og eftirlits ásamt ýmsum verkefnum í tengslum við undirbúning stjórnsýslumála og öflun rafrænna sönnunargagna. Verkefni þeirra tveggja lögfræðinga sem óskað er eftir er verkefnastjórn með aðgerðum, ákvarðanir um stjórnvaldssektir og almenn stjórnsýslumeðferð mála.
Samtök ferðaþjónustunnar áætla að rúmlega 6.000 gestgjafar bjóði upp á heimagistingu um allt land og þar af séu um 4.000 í Reykjavík. Ný lög um heimgistingu tóku gildi 1. janúar 2017 og var markmiðið með lögunum að koma þessari starfsemi allri upp á yfirborðið með því að skylda gestgjafa til skráningar. „Aðeins um 1.000 gestgjafar á landinu öllu hafa hins vegar skráð sig hjá embætti sýslumannsins í Reykjavík. Það hefur því miður ekki gengið sem skyldi en með þessu átaki stjórnvalda er verið að stíga mjög jákvætt skref í rétta átt,“ segir Skapti Örn.
Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands velti heimagisting í gegnum Airbnb um land allt um 15 milljörðum króna árið 2017.
„Við höfum verið að skjóta á að þeir fjármunir sem eru undir yfirborðinu hvað heimagistingu varðar geti numið um 2 milljörðum króna. Það eru umtalsverðir fjármunir sem væri hægt að nýta til að byggja upp innviði í ferðaþjónustu. „Það er auðvitað ólíðandi fyrir fyrirtæki sem stunda ábyrgan og heiðarlegan atvinnurekstur að keppa við aðila sem kjósa að vera „utan þjónustusvæðis“ og skila hvorki sköttum né skyldum,“ segir Skapti Örn.
Ráðuneytið leggur áherslu á að þrátt fyrir að átaksverkefninu fylgi tiltekinn kostnaður megi gera ráð fyrir því að samhliða auknu eftirliti muni sektargreiðslur vegna brota á lögunum og bætt skattskil skila fjárfestingunni til baka hratt og örugglega en áætlað er að einungis sektargreiðslur vegna skráningarleysis geti numið um 50 milljónir króna.
Lagt er til að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra verði falið að útfæra fjármögnun á átaksverkefni svo auka megi eftirlit og þannig jafna samkeppnisstöðu í giststarfsemi hér á landi, skattheimtu og öryggi ferðamanna, en allt bendi til að slíkt verkefni muni geta staðið undir sér.