Á undanförnum tólf mánuðum hefur Jeff Bezos, forstjóri og stofnandi Amazon, aukið virði eigna sinna um 60 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 6.360 milljarða króna. Á mánuði nemur það um 530 milljörðum króna, og í þrjátíu daga mánuði eru það um 17,6 milljarðar á hverjum degi vikunnar.
Þetta svipar því að Bezos bæti við sig markaðsvirði alls hlutafjár sem skráð er á markað á Íslandi, á sex vikna fresti.
Highlights from today’s mission. Don’t miss the Nerf ball doing a few backflips in zero gravity. #GradatimFerociter @BlueOrigin pic.twitter.com/YxlJRt0MXc
— Jeff Bezos (@JeffBezos) April 30, 2018
Sannarlega ótrúlegar tölur.
Aldrei í sögunni hafa eignir eins manns aukist jafn mikið og hratt, og er Bezos nú langsamlega ríkasti maður heimsins, samkvæmt lista Forbes tímaritsins, en eignir hans nema nú um 145 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 15.370 milljörðum króna. Þar munar mest um 17 prósent hlut í Amazon, en verðmiðinn á því fyrirtæki nemur nú um 820 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 90 þúsund milljörðum króna.
Á einu ári hefur markaðsvirði Amazon aukist um 350 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 37 þúsund milljörðum króna.
Aðeins Apple er verðmeira, en verðmiði þess er nú 944 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 100 þúsund milljörðum króna.
Bezos er einnig eigandi Washington Post og geimferðar- og rannsóknarfyrirtækisins Blue Origin.