Meirihluti utanríkismálanefndar hefur skilað breytingartillögu á frumvarpi um Íslandsstofu þar sem upplýsingalögin munu áfram gilda um starfsemi hennar. Í frumvarpi utanríkisráðherra átti starfsemi Íslandsstofu að vera undanþegin ákvæðum upplýsingalaga, samkeppnislaga og laga um opinber innkaup sem meirihlutinn vill að gildi áfram um Íslandsstofu. Upplýsingalögin veiti þó ekki aðgang að upplýsingum sem varða málefni starfsmanna hennar eða fjárhags- eða viðskiptahagsmuni þeirra einkaaðila sem taka þátt í verkefnum hennar samkvæmt breytingartillögunni.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra lagði fram stjórnarfrumvarp um breytingu á lögum um Íslandsstofu þar sem meðal annars rekstrarformi og hlutverki hennar er breytt. Íslandsstofa verður þannig sjálfseignarstofnun og mun það að sögn utanríkisráðherra eyða óvissu um stjórnsýslulega stöðu stofnunarinnar.
Vill meirihluti utanríkismálanefndar að upplýsingalögin gildi áfram um Íslandsstofu en samkvæmt frumvarpinu átti hún að vera undanþegin upplýsingalögum. Utanríkisráðherra sagði í framsögu sinni á Alþingi þegar hann mælti fyrir frumvarpinu að með því yrði Íslandsstofa ekki lengur stofnun og stjórnsýsluaðili, heldur rekin á einkaréttarlegum grunni, og því gætu stjórnsýslulög og upplýsingalög ekki gilt um sjálfseignarstofnunina Íslandsstofu. Gildissvið þessara laga sé bundið við opinbera aðila og stjórnsýslu þeirra og hið sama eigi við um gildissvið starfsmannalaga sem lagt var til að nái ekki heldur til starfsmanna Íslandsstofu.
Í frumvarpinu er sem sagt lagt til að Íslandsstofa sé undanþegin tekjuskatti samkvæmt lögum um tekjuskatt og að ákvæði stjórnsýslulaga, upplýsingalaga, samkeppnislaga og laga um opinber innkaup eigi ekki við um starfsemi hennar.
Með breytingartillögu meirihlutans verður Íslandsstofa hins vegar áfram undanþegin tekjuskatti eins og lagt er til í frumvarpi utanríkisráðherra og munu ákvæði stjórnsýslulaga ekki gilda um starfsemi hennar. Þannig vill meirihluti utanríkismálanefndar að ákvæði bæði samkeppnislaga og laga um opinber innkaup eigi áfram við um Íslandsstofu. Þá er lagt til í breytingartillögunni að tekið sé sérstaklega fram að upplýsingalögin gildi um starfsemi Íslandsstofu. Þau veiti þó ekki aðgang að upplýsingum í fórum Íslandsstofu sem varða málefni starfsmanna hennar eða fjárhags- eða viðskiptahagsmuni þeirra einkaaðila sem taka þátt í verkefnum hennar.
Nefndarálit meirihlutans, og þannig efnislegur rökstuðningur fyrir þessum breytingum, hefur ekki enn verið birtur á vef Alþingis.