Hafrannsóknastofnun leggur til að aflamark í þorski verði aukið um þrjú prósent á næsta fiskveiðiári, 2018 til 2019, og að þorskkvótinn fari úr 257,6 þúsund tonnum í 264,4 þúsund tonn.
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag, en hrygningarstofn þorsksins hefur ekki verið stærri í hálfa öld.
Lagt er að aflamark ýsu verði aukið um 40 prósent miðað við síðasta ár, og verði tæplega 59 þúsund tonn. Í viðtali við Morgunblaðið segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, að þessi ráðgjöf frá Hafró geti aukið útflutningsverðmæti heildarsjávarafla um átta til tíu milljarða króna.
Útflutningsverðmæti sjávarafurða var á milli 190 og 200 milljarða í fyrra, og því er um verulega búbót að ræða fyrir sjávarútveginn.