Páll Magnússon oddviti sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi og formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis talaði minnst allra þingmanna á nýloknu þingi.
148. löggjafarþinginu lauk klukkan 00.38 í fyrrinótt. Næsti þingfundur verður þann 17. júlí, til undirbúnings hátíðarþingfundar á Þingvöllum daginn eftir þann 18. júlí.
Ræðukóngur þingsins var að þessu sinni Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata sem talaði samtals í 1.024,64 mínútur eða 17,1 klukkustund. Á hinum endanum var eins og fyrr segir Páll Magnússon sem náði ekki heilli klukkustund í ræðustóli Alþingis, en hann talaði alls í 48,31 mínútu.
Það er einmitt erfitt að ná tali af Páli þessa stundina, en hann hefur ekki enn í dag tjáð sig um brottvikningu hans úr fulltrúaráði Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum og þeirri stöðu sem þar er upp komin. Aukaaðalfundur ráðsins lýsti yfir vantrausti á Pál í gær, sagðist í ályktun ekki geta litið á hann sem trúnaðarmann Sjálfstæðisflokksins og hefur óskað eftir fundi með flokksforystunni vegna þessa. Páll studdi ekki opinberlega framboð Sjálfstæðisflokksins í Eyjum en þar bauð klofningsframboð úr flokknum sig fram, Fyrir Heimaey, og vann mikinn sigur og hefur myndað meirihluta með Eyjalistanum og skilið Sjálfstæðisflokkinn eftir í minnihluta.
Helgi Hrafn Gunnarsson flokksbróðir Björns Leví í Pírötum talaði næst mest á þessu þingi, 16,2 klukkustundir. Bronsið að þessu sinni hlýtur síðan Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins en hann talaði 10,7 klukkustundir. Fast á hæla hans kemur Willum Þór Þórsson þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, en hann talaði í 10,5 klukkustundir.
Samtals héldu þingmennirnir ræður úr ræðustólnum í um 300 klukkustundir.
Næst minnst talaði Anna Kolbrún Árnadóttir þingmaður Miðflokksins en hún hélt ræðu í 1,3 klukkustundir. Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingmaður Vinstri-grænna talaði 1,5 klukkustundir, Halla Signý Kristjánsdóttir þingmaður Framsóknar í 1,6 stundir og Þórunn Egilsdóttir þingmaður Framsóknar í 1,7 stundir. Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins talaði í 1,8 klukkustundir og Ásmundur Friðriksson flokksbróðir hans í 1,9 stundir.
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar töluðu samtals í rúmar 52 klukkustundir. Þar talaði Bjarni mest eins og áður greinir. Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra talaði næstmest í ráðherraliðinu, í 5,6 klukkustundir, en kollegar þeirra þau Siguður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra töluðu öll í rúmar fimm klukkustundir. Aðrir ráðherrar töluðu minna.