Seðlabankinn spáir fyrir meira framboði óhefðbundinna greiðslulausna og aukinni hagkvæmni í kjölfar nýrrar tilskipunar Evrópusambandsins, sem innleidd verður fljótlega á Íslandi. Hins vegar muni reiðufé líklega halda áfram að gegna mikilvægu hlutverki á Íslandi, þrátt fyrir fyrirhugaðar breytingar. Þetta kemur fram í nýjasta tímariti Fjármálainnviða Seðlabankans.
Tilskipunin, sem kölluð er PSD2, er uppfærsla á samræmdu regluverki í kringum greiðsluþjónustu á Evrusvæðinu. Uppfærslan á að taka tillit til nýrra leiða í stafrænni þjónustu og greiða fyrir nýsköpun á þeim vettvangi, samhliða því að bæta öryggi neytenda.
Samkvæmt Seðlabankanum eru helstu breytigar sem PSD2 hefur í för með sér ný tegund greiðsluþjónustu sem gerir þjónustufyrirtækjum á netinu kleift að virkja greiðslu beint við banka neytenda, án færsluhirðis söluaðila og kreditkortakerfi. Í skýrslunni segir að þessi þróun kunni að leiða til aukinnar hagkvæmni í rafrænni smágreiðslumiðlun. Hins vegar væri brýnt að efla vitund neytenda í þessum efnum og mikilvægt að viðeigandi stjórnvöld stuðli að þeirri vitundarvakningu.
Kreditkortin þjóðhagslega óhagkvæm
Kreditkortanotkun á Íslandi er mun algengari en í öðrum ríkjum Evrópu, en samkvæmt Seðlabankanum er kostnaður samfélagsins af þeim meiri en vegna debetkorta. Kreditkortum fylgi milligjöld og minna gagnsæi í viðskiptum, en öllum færslugjöldum sé að öllum líkindum velt út í verðlag. Því mætti búast við lækkun á verði fjármálaþjónustu nái aðrir greiðslumöguleikar að keppa við kreditkortaþjónustu.
Reiðufé þó enn vinsælt
Þrátt fyrir fyrirhugaðar breytingar í greiðslumiðlun gerir Seðlabankinn þó ráð fyrir því að reiðufé muni enn eiga veigamikinn þátt á Íslandi á næstu árum. Í lok árs 2017 var virði reiðufjár í umferð á Ísland um 60 milljarðar íslenskra króna, eða 2,4% af vergri landsframleiðslu. Hlutfallið er lágt í alþjóðlegum samanburði, en sams konar hlutfall á Evrusvæðinu er yfir 10% og yfir 12% í Sviss. Þrátt fyrir lágt hlutfall reiðufjár af landsframleiðslu hefur það hækkað umtalsvert frá hruni, en á árunum 1985-2007 var það í kringum 1%, eða helmingi lægra.