Afgangur í rekstri hins opinbera var hærri á fyrsta ársfjórðungi þessa árs en á sama tímabili fyrir ári síðan, þrátt fyrir meiri samneyslu og hærri launakostnað. Samhliða því hafa skuldir hins opinbera lækkað töluvert. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Hagstofu um fjármál hins opinbera.
Tekjur hins opinbera umfram gjöld nam 9,6 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi 2018, eða um 1,5% af landsframleiðslu fyrir sama tímabil. Til samanburðar var tekjuafkoma ríkissjóðs fyrir sama tímabil í fyrra jákvæð um 8,4 milljarða króna.
Aðalástæður bættrar afkomu ríkissjóðs í ár eru hærri skatttekjur og minni vaxtakostnaðar, en skatttekjur og tryggingagjöld jukust um 6,2%, á meðan vaxtagjöld hafa lækkað um 14,9%. Báðir liðirnir voru nægir til að auka afgang hins opinbera, þrátt fyrir 2,9% aukningu í samneyslu og 7,9% hækkun launakostnaðar.
Heildarskuldir hins opinbera eru nú 58,9% af vergri landsframleiðslu, miðað við 63,3% fyrir sama tímabil í fyrra. Skuldahlutfall ríkissjóðs hefur lækkað jafnt og þétt frá árinu 2013, en þá nam það rúmum 100% af landsframleiðslu. Meginþátturinn í lækkun skuldahlutfallsins þessa árs er samdráttur erlendra lána, en þau minnkuðu um rúma 90 milljarða króna milli ára.