Hlutfall skráðra leiguíbúða eftir sveitarfélögum er hvergi jafnhátt og í Reykjanesbæ. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Íbúðalánasjóðs sem kom út í dag.
Í úttektinni er að því vikið að hlutfallslega séu jafnmargir á leigumarkaði á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu, en samkvæmt könnun á vegum Íbúðalánasjóðs og Zenter eru leigjendur í báðum tilvikum 18% íbúa.
Ef litið er á stærð leigumarkaðs sem hlutfallslegan fjölda þinglýstra leigusamninga af íbúðafjölda sést mikill munur milli sveitarfélaga. Þar er umrætt hlutfall 6,7% á höfuðborgarsvæðinu en tvöfalt hærra í Reykjanesbæ, eða 13,4%. Svipuð mynd kemur upp þegar litið er til hlutfalls íbúa sem fá greiddar húsnæðisbætur, en það er 7% á Reykjavíkursvæðinu samanborið við 9,8% í Reykjanesbæ.
Langmest hækkun á fasteignamati
Kjarninn greindi áður frá fasteignamati Þjóðskrár fyrir árið 2019, en samkvæmt því mun fasteignamat hækka um 41,1 prósent í Reykjanesbæ á yfirstandandi ári, mest allra sveitarfélaga. Þessi hækkun er nær fjórföld meðaltalshækkunar á höfuðborgarsvæðinu þar sem spáð er að virði fasteigna muni aukast um 11,6%.