Tryggð íslenskra kjósenda við stjórnmálaflokka hefur farið minnkandi á síðustu þremur áratugum, þrátt fyrir að hugmyndafræðileg gjá milli borgar og landsbyggðar standi óbreytt. Þetta eru niðurstöður nýrrar fræðigreinar stjórnmálafræðinganna Evu Heiðu Önnudóttur og Ólafs Þ. Harðarsonar við Háskóla Íslands.
Í greininni, sem birtist í nýjasta tölublaði Stjórnmála og Stjórnsýslu á dögunum, er farið yfir kosningahegðun Íslendinga eftir niðurstöðum úr Íslensku kosningarannsókninni frá árunum 1983 til 2017. Rannsóknin var framkvæmd í kjölfar hverra Alþingiskosninga sem fóru fram á þessu tímabili, en þær voru alls tíu.
Hnignun Fjórflokks breytti litlu
Niðurstöður Evu og Ólafs bentu til þess að fylgisminnkun Fjórflokksins og ris fjölda nýrra stjórnmálaflokka hafi haft lítil kerfislæg áhrif á hegðun íslenskra kjósenda. Hugmyndafræðileg gjá milli borgar og sveitar hefur nokkurn veginn haldist óbreytt á tímabilinu, enn sé jafnstór munur á kosningahegðun kjósenda í dreifbýli og þéttbýli og fyrir þremur áratugum síðan. Gjáin í stefnumálum milli hægri- og vinstriflokka er sömuleiðis jafnstór nú og árið 1983, en hún minnkaði tímabundið á árunum 2003 til 2013.
Helsta breytingin sem hefur átt sér stað í kosningahegðun Íslendinga er hins vegar aukinn sveigjanleiki kjósenda. Atkvæði fara í minni mæli eftir þjóðfélagsstöðu kjósenda, auk þess sem ekki skiptir jafnmiklu máli nú og áður að kjósandi velji flokk sem er hugmyndafræðilega nálægt honum á hægri-vinstri ásnum. Samhliða því hefur tryggum kjósendum stjórnmálaflokka einnig farið fækkandi á þremur áratugum.
Til útskýringar á niðurstöðum sínum nefna Eva og Ólafur tvær hugsanlegar afleiðingar hvers vegna fylgi sé ekki jafnbundið ákveðnum stjórnmálaflokkum-og stefnum og áður. Annars vegar gæti mikill fjöldi nýrra flokka valdið því að kjósendur séu ekki jafnupplýstir um hvar þeir liggja á hægri-vinstri ás stjórnmálanna og kjósi því oftar flokka sem samrýmast þeirra stjórnmálaskoðunum ekki jafnvel. Hins vegar er einnig möguleiki á að Íslendingar kjósi í auknum mæli af ástæðum sem séu ótengdar hægri-vinstri ás stjórnmálaflokkanna.