Þeir voru ekki margir hveitibrauðsdagar nýrrar borgarstjórnar. Innan við klukkutíma eftir að fyrsti fundur borgarstjórnar var settur í dag, var Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins farin að kalla eftir rannsókn vegna algjörs trúnaðarbrests.
Þannig var að Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins óskaði eftir nánari útskýringum á stofnun umhverfis- og heilbrigðisráðs, hlutverki þess og tilgangi. Líf Magneudóttir borgarfulltrúi Vinstri grænna kom í pontu og þakkaði í svari sínu Mörtu fyrir að vilja taka sæti í ráðinu.
Þá varð uppi fótur og fit. Minnihlutanum varð mikið um við að heyra að Líf væri kunnugt um að Marta ætli að taka sæti í ráðinu. Var töluvert rætt um trúnaðarbrest og óskað eftir því formlega í ræðum að Líf upplýsti hvaðan úr kerfinu hún hefði þær upplýsingar að Marta ætlaði að setjast í umhverfis- og heilbrigðisráð.
Líf sagði að það væri ekkert óeðlilegt við að fólk ræddi saman á göngunum.
Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðismanna sagði að ekki mætti gera lítið úr þessu, þeir sem ekki séu trúir yfir því litla séu ekki til þess fallnir að halda utan um það stóra. Um væri að ræða prófraun fyrir borgarstjórnina.
Hildur Björnsdóttir samflokksmaður Eyþórs lýsti yfir miklum áhyggjum af þeim trúnaðarbresti sem upp var kominn og óskaði eftir upplýsingum um hvernig þessar upplýsingar hafi lekið til Lífar.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri velti því upp hvort þetta væri stóra málið í borgarstjórn. Sagðist ekki kunnugt um hvort að þessar sameiginlegu tillögur minnihlutans hefðu átt að fara leynt, en þessar upplýsingar væru sannarlega opinberg gögn. „Ég átta mig engan veginn á þessum málfundaræfingum sem hér eru,“ sagði Dagur.
Marta Guðjónsdóttir óskaði eftir skoðun á málinu af annað hvort óháðum aðila eða innri endurskoðun.
Líf sagði um brigsl að ræða. Henni hafi borist það til eyrna að Marta kynni að sitja í ráðinu og þegar hún hafi síðan spurt sérstaklega út í ráðið á fundinum hafi hún lagt saman tvo og tvo.